Reiðhjólanotkun í París hefur aukist mikið að undanförnu, en samkvæmt úttekt franska dagblaðsins Le Monde tvöfaldaðist notkunin í borginni frá október 2022 til október 2023 og á einhverjum stöðum þrefaldaðist hún. Síðan þá hafa tölurnar haldið áfram að hækka.
Viðleitni borgarinnar til að gera götur sínar reiðhjólavænni virðist því hafa borið árangur, en undanfarin ár hefur stefna borgarstjórans miðað að því að gera borgina reiðhjólavænni.
Í umfjöllun Momentum Magazine segir að tölfræðin endurspegli víðtæka samfélagslega breytingu í átt að sjálfbærum hreyfanleika og endurnýjun borgarinnar. Þrátt fyrir áskoranir eins og leiðinlegt veður undanfarið halda hjólreiðamenn áfram að flykkjast út á göturnar, setja ný aðsóknarmet og með því endurmóta borgarlandslagið.
Hjólreiðar eru orðnar órjúfanlegur hluti af daglegu lífi í París, hvort sem um ræðir rólegar ferðir meðfram Signu eða daglegar ferðir um iðandi breiðgötur.
Breytingarnar eru að miklu leyti tilkomnar vegna breyttra áhersla sem borgarstjórinn Anne Hidalgo setti fram, en undir hennar stjórn hefur borgin fjárfest hundruð milljónum evra í að stækka hjólakerfi borgarinnar og hefur hún sett það markmið að gera París að „100 prósent hjólaborg.“
Samkvæmt Le Monde, sem dregur upp skýra mynd af hjólreiðamenningu borgarinnar, heldur notkun hjólreiðabrauta áfram að aukast verulega. Á álagstímum eru reiðhjól fleiri en bílar á ákveðnum götum borgarinnar.
Segir þar að það sjáist greinilega hversu mikið hjólandi umferð hefur aukist á götum borgarinnar og að sífellt verði þrengra um hjólandi á götunum og öðrum hjólainnviðum. Telur Le Monde að enn vanti talsvert á að aðlögun innviða skili því að borgin verði hjólreiða paradísin sem Hidalgo sér fyrir sér vegna þessa.
Aðstoðarborgarstjóri Parísar, David Belliard, segir þetta ekki koma sér á óvart. Vitað hafi verið að hjólreiðar í París hafi farið fram úr því sem hægt væri að kalla tískubylgju, heldur séu þær séu orðnar grundvallaratriði í sjálfsmynd borgarinnar og íbúa..
Samkvæmt Momentum er ólíklegt að þessi þróun hægi á sér í bráð. Gera megi frekar ráð fyrir að hún dreifi sér um allt Frakkland.
Borgin haldi áfram að fjárfesta í hjólreiðainnviðum og með útþenslu hjólastíga og nýstárlegum hjólaáætlunum líti framtíð hjólreiða í einni þekktustu borg heims bjartar út en nokkru sinni fyrr.