Byggja geymslu fyrir kjarnorkueldsneyti

Teiknuð mynd af kjarnorkueldsneytisgeymslunni. Hún kemur til með að hýsa …
Teiknuð mynd af kjarnorkueldsneytisgeymslunni. Hún kemur til með að hýsa 12.000 tonn af notuðu kjarnorkueldsneyti. Mynd/SKB

Bygging á geymslu sem ætlað er að hýsa notað kjarnorkueldsneyti í 100.000 ár hófst á miðvikudag í Svíþjóð.

Hvernig geyma skal banvænan geislavirkan úrgang þar til hann getur talist öruggur er spurning sem hefur fylgt kjarnorkuiðnaðinum síðan á fimmta áratugnum, þegar kjarnakljúfar voru teknir í notkun, að því er segir í umfjöllun Reuters.

Aðeins ein önnur í heiminum

Aðeins ein slík geymsla þar sem geislavirkur úrgangur verður geymdur í 100.000 ár, er til í heiminum og er sú í Finnlandi.

Mikilvægi þess að bygging geymslunnar gangi upp, bæði fyrir Svíþjóð og fyrir loftslagsbreytingar í heild sinni, er gríðarlegt, að sögn Romina Pourmokhtari, umhverfisráðherra Svíþjóðar. „Þeir sögðu að það myndi ekki virka, en það gerir það.“

Farga þarf um 300.000 tonnum

Samkvæmt Alþjóðakjarnorkusambandinu þarf að farga um 300.000 tonnum af notuðu kjarnorkueldsneyti á heimsvísu. Stærstur hluti þess er nú geymdur í kælilaugum nálægt kjarnakljúfunum sem úrgangurinn varð til.

Geymslan, sem kennd er nú við þorpið Forsmark, um 150 kílómetra norður af Stokkhólmi á austurströnd Svíþjóðar, mun samanstanda af 60 kílómetra löngum göngum sem grafin verða 500 metra niður í 1,9 milljarða ára gamlan berggrunn.

Geymslan verður lokaáfangastaður 12.000 tonna af notuðu kjarnorkueldsneyti, hjúpað í 5 metra löngum koparhylkjum, sem pakkað verður í leir og grafin.

Krafist frekari öryggisathugunar

Búist er við að geymslan taki við sínum fyrsta úrgangi um 2030 en verði ekki fullgerð fyrr en um 2080. Þá verða göngin fyllt og þeim lokað. Þetta er haft eftir Sænska kjarnorkueldsneytis- og úrgangsfyrirtækinu (SKB).

Ferlið gæti þó tafist en MKG, sænsk félagasamtök sem vinna að málefnum er viðkoma kjarnorkuúrgangi, hafa lagt fram áfrýjun til sænskra dómstóla þar sem krafist er frekari öryggisathugunar.

Þar segir að rannsóknir frá Konunglega tækniháskóla Svíþjóðar sýni að koparhylkin eigi á hættu að gefa sig og í kjölfarið geti geislavirk efni lekið í grunnvatnið.

„Við höfum svigrúm til að bíða í tíu ár með að taka ákvörðun, þar sem þetta er eitthvað sem þarf að vera öruggt í 100.000 ár,“ sagði Linda Birkedal, formaður MKG.

12 milljarðir sænskra króna

Forsmark-geymslan kemur til með að kosta um 12 milljarða sænskra króna, sem nemur um 151,8 milljörðum íslenskra króna, og verður greidd af kjarnorkuiðnaðinum, að sögn SKB.

Geymslan kemur til með að hýsa allan þann úrgang sem framleiddur er af kjarnorkuverum Svíþjóðar.

Hins vegar mun hún ekki hýsa eldsneyti frá framtíðarkjarnakljúfum en Svíar ætla til viðbótar að byggja 10 slíka fyrir árið 2045.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert