Ríkisstjórn Ísraels samþykkir vopnahlé

Frá Gasa.
Frá Gasa. AFP

Ríkisstjórn Ísraels hefur samþykkt samkomulag um vopnahlé á Gasasvæðinu og lausn gísla.

Öryggisráð Ísraels lagði í dag blessun sína yfir vopnahléið og lagði til við ríkisstjórnina að það yrði samþykkt. 

Ríkisstjórnin fundaði í sex klukkustundir áður en vopnahléið var samþykkt. 

Sam­komu­lagið á að kom­ast til fram­kvæmda í þrem­ur áföng­um. Í fyrsta áfanganum, sem á að hefjast á sunnudaginn og standa yfir í sex vikur eiga Hamas-samtökin að sleppa 33 af þeim gíslum sem samtökin tóku í hryðjuverkunum 7. október 2023, gegn því að Ísra­els­menn láti lausa um þúsund manns, sem nú dvelja í ísra­elsk­um fang­els­um.

Sam­hliða fanga­skipt­un­um mun Ísra­els­her draga sig frá Gasa­svæðinu.

Hamas rændu 251 þann 7. október en talið er að 60 séu enn á lífi. Gætu fyrstu gíslunum verið sleppt úr haldi strax á sunnudaginn. 

Sökuðu Hamas um að fara á bak orða sinna

Óvissa ríkti í gærmorgun um samkomulagið eftir að ríkisstjórn Ísraels sakaði hryðjuverkasamtökin um að vilja endursemja um nokkra þætti vopnahléssamkomulagsins og ganga þar með á bak orða sinna.

Sami Abu Zuhri, einn af leiðtogum Hamas-samtakanna, sagði að ásakanir Ísraelsstjórnar væru algjörlega tilhæfulausar og sögðu talsmenn samtakanna að þau stæðu á bak við samkomulagið.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert