Rauði krossinn hefur staðfest móttöku þriggja gísla úr höndum Hamas-hryðjuverkasamtakanna.
Þetta staðfestir ísraelski herinn í yfirlýsingu.
Um er að ræða fyrstu gíslana sem sleppt er úr haldi Hamas vegna samkomulagsins um vopnahlé á milli Ísraela og Hamas.
Gíslarnir þrír eru ungar konur sem teknar voru höndum í árás Hamas 7. október 2023. Árásinni sem hrundi af stað stríðinu á Gasasvæðinu.
Þær eru Romi Gonen 24 ára, sem tekin var höndum á Supernova tónlistarhátíðinni, Emily Damari 28 ára og Doron Steinbrecher 31 árs. Þær tvær síðastnefndu voru teknar höndum í Kfar Aza, nálægt suðurlandamærum Ísraels að Gasa.
Romi Gonen er 24 ára gömul frá Norður-Ísrael. Hún var meðal tuga handtekinna þegar vígamenn Hamas-hryðjuverkasamtakanna réðust til atlögu á Supernova reif-hátíðinni.
Reyndi hún að flýja á bíl og hringdi að sögn í móður sína, sem reyndi að hugga hana undir háværum sprengingum. Bíllinn fannst síðar mannlaus og var sími Gonen rakinn til Gasasvæðisins. Gonen, sem er hæfileikaríkur dansari og danshöfundur hlaut áverka á hendi, eftir því sem móðir hennar segist hafa fengið að vita frá frelsuðum gíslum.
Emily Damari er 28 ára gömul. Hún fæddist í Ísrael og ólst upp í Kfar Aza, nálægt suðurlandamærum Ísraels að Gasasvæðinu.
Hún var stödd á heimili sínu þegar byssumenn Hamas-hryðjuverkasamtakanna réðust til atlögu. Hundur hennar, Choocha, var skotinn til bana og slasaðist Damari bæði á höndum og fótum.
Doron Steinbrecher er 31 árs gömul ísraelsk-rúmenskur ríkisborgari sem rænt var frá Kfar Aza. Steinbrecher kom fram með tveimur öðrum gíslum í myndbandi sem Hamas-hryðuverkasamtökin gáfu út í janúar á síðasta ári.