Stefán Einar Stefánsson
Örfáar klukkustundir eru í að Donald J. Trump verði svarinn inn í embætti sem 47. forseti Bandaríkjanna. Rafmagnað andrúmsloft er í Washington D.C. höfuðborg Bandaríkjanna. Morgunblaðið er á staðnum.
Fyrr í dag mætti Trump til minningarathafnar í Arlington-kirkjugarðinum handan Potomac-árinnar þar sem um það bil 400 þúsund hermenn Bandaríkjanna hvíla. Þar fór fram athöfn í minningu þeirra hermanna sem létust í stríðinu í Afganistan.
Gríðarleg öryggisgæsla er í borginni og munu um 25 þúsund öryggisverðir vera á vakt meðan á valdaskiptunum stendur.
Morgunblaðið er með fulltrúa sinn á staðnum og verður fylgst náið með framgangi mála næsta sólarhringinn. Fjallað verður um málið á mbl.is og einnig verður innsetningarathöfninni gerð skil í Morgunblaðinu sem kemur út á þriðjudag.