Fráfarandi Bandaríkjaforsetinn Joe Biden neytti færis fyrir brotthvarf sitt úr embætti í dag og náðaði ýmsa ættingja sína og maka þeirra fyrir fram, ef til þess kæmi að pólitískar ofsóknir óvildarmanna kæmu Biden-fjölskyldunni síðar í koll sem ákærur, jafnvel dómar.
Framtíðarnáðana þessara njóta James Biden, bróðir forsetans fráfarandi, og hans eiginkona, Sara Jones Biden, Valerie Biden, systir Joes, og maður hennar John Owens auk bróður forsetans fyrrverandi, Francis Biden.
Af öðrum en eigin skyldmennum sem náðanir Bidens taka til eru Anthony Fauci, sóttvarnalæknir landsins í heimsfaraldrinum minnisstæða, sem lenti mjög upp á kant við Donald Trump, en kunn er sú hótun þess síðarnefnda að ná sér niðri á rannsóknarnefnd þingsins um árásina á Capitol Hill á þrettándanum 2020 og „öðrum andstæðingum innanbúðar“ (e. „other enemies from within“).
Lét Biden þau orð falla í dag að þjóðin ætti í mikilli þakkarskuld við Fauci og rannsóknarnefndina fyrir ósérhlífni þeirra.
„Fjölskylda mín hefur mátt sæta miskunnarlausum árásum og hótunum sem eingöngu eru drifnar þeim hvata að skaða mig,“ sagði Biden undir lok embættistíðar sinnar er hann rökstuddi gjörðir sínar í dag.