Mikill vindur gæti leitt til fleiri elda

Eldarnir, sem hófust 7. janúar, hafa eyðilagt gríðarstórt landsvæði, um …
Eldarnir, sem hófust 7. janúar, hafa eyðilagt gríðarstórt landsvæði, um 16.000 hektara, á Los Angeles-svæðinu. AFP/Josh Edelson

Miklar vindhviður ógna öryggi íbúa í Los Angeles. Veðurfræðingar vöruðu almenning við „mjög alvarlegri“ hættu á svæði sem þegar hefur þurft að þola gríðarlega eyðileggingu vegna mikilla elda.

Eldarnir, sem hófust 7. janúar, hafa eyðilagt gríðarstórt landsvæði, um 16.000 hektara, á Los Angeles-svæðinu og hafa að minnsta kosti 27 manns farist.

Búin undir það versta

Miklir vindar, sem sums staðar hafa náð allt að 142 kílómetra hraða á klukkustund, á landsvæði sem er virkilega þurrt fyrir, eiga á hættu að leiða til frekari elda, sem muni þá breiðast hratt út.

„Við búumst við því að þetta muni halda áfram að skapa mjög alvarleg veðurskilyrði til elds á svæðinu,“ sagði Ariel Cohen hjá Veðurstofu Bandaríkjanna (National Weather Service, NWS) við fjölmiðilinn AFP.

„Allir eldar sem myndast gætu vaxið á ógnarhraða og því er þetta sérstaklega hættulegt ástand.“

„Ég trúi því að við verðum mjög vel undirbúin fyrir verstu mögulegu útkomu næstu daga, og þá nær þetta vonandi ekki svo langt,“ sagði Karen Bass, borgarstjóri Los Angeles, við fjölmiðla.

Stærsti eldsvoðinn, Palisades-eldurinn, var 59 prósent stöðvaður á mánudag og svæðið sem varð fyrir áhrifum rýmingarfyrirmæla hefur nú verið minnkað.

Mikil eyðilegging varð í Pasadena í Kaliforníu.
Mikil eyðilegging varð í Pasadena í Kaliforníu. AFP

Pólitískar deilur

Á meðan Los Angeles glímir við umfang eyðileggingarinnar aukast pólitískar deilur í Bandaríkjunum.

Donald Trump, sem sór embættiseið sem forseti Bandaríkjanna á mánudag, hefur sagt að hann muni heimsækja eldsvoðasvæðin í lok vikunnar.

Sú ferð gæti leitt til óþægilegra kynna við Gavin Newsom, ríkisstjóra Kaliforníu, sem hefur verið skotmark Trumps vegna meðhöndlunar hans á hamförunum.

„Við getum ekki látið þetta gerast. Enginn getur gert neitt í þessu. Það mun breytast,“ sagði Trump og hélt því um leið fram að það væri „áhugavert“ að sumir auðmenn hefðu misst heimili sín.

Newsom svaraði skotunum ekki beint en bauð nýsettan forseta velkominn.

„Þetta augnablik undirstrikar mikla þörf fyrir samstarf, sameiginlega skuldbindingu við staðreyndir og gagnkvæma virðingu – gildi sem gera borgaralega umræðu, skilvirka stjórnarhætti og þýðingarmiklar aðgerðir mögulegar,“ skrifaði hann á samfélagsmiðla.

„Ég hlakka til heimsóknar Trump forseta til Los Angeles og til þess að hann virki fullt afl ríkisstjórnarinnar til að hjálpa landsmönnum öllum að endurreisa og jafna sig.“

Hegðun mannkyns breyti veðurmynstri

Þótt orsök eldanna sé ekki enn ljós segja vísindamenn hegðun mannkyns breyta veðurmynstri og gera það sveiflukenndara, sem geti aukið meðfylgjandi eyðileggingu.

Ekki hefur rignt almennilega í Suður-Kaliforníu í um átta mánuði, jafnvel þótt langt sé liðið á það sem kallað er regntímabilið.

Embættismenn hafa varað við því að ef það fari að rigna geti það skapað hættulegar aðstæður á hamfarasvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert