Segir gagnrýnendur þurfa betri brellur

Auðjöfurinn Elon Musk segir gagnrýnendur sína þurfa að beita betri óhreinum brellum gegn sér. Kveðja Musks á „sigurhátíð“ innsetningardags Donalds Trumps í embætti Bandaríkjaforseta hefur vakið mikla athygli en hún hefur þótt líkjast nasistakveðju Þjóðverja í valdatíð Adolfs Hitlers.

Deilur hafa brotist út vegna kveðjunnar um hvort Musk hafi í raun verið að notast við kveðju nasista á innsetningarathöfninni.

Árásin orðin þreytt

Claire Aubin, sagnfræðingur sem sérhæfir sig í nasisma innan Bandaríkjanna, segir kveðju Musks vera nasistakveðjuna og að fólk eigi að trúa sínum eigin augum.

Musk hefur nú loks tjáð sig um kveðjuna á miðli sínum X og segir demókrata þurfa að beita betri óhreinum brellum gegn sér en þetta.

„Þessi „allir eru Hitler-árás“ er orðin svo þreytt,“ skrifar hann enn fremur.

Verja bendingu Musks

Kveðjan vekur þá kannski enn meiri athygli í ljósi þess að Musk hefur á undanförnum vikum lýst yfir stuðningi við þýska öfgahægriflokkinn Alternative für Deutschland (AfD) sem og breska Íhaldsflokkinn Reform uk.

Samtökin Anti-Defamation League, sem voru stofnuð til að berjast gegn gyðingahatri og hafa áður gagnrýnt Musk, hafa þó varið gjörðir hans að þessu sinni.

Í yfirlýsingu frá samtökunum á X segja þau að ekki sé um nasistakveðju að ræða. Frekar hafi Musk gert óþægilega bendingu í augnabliki þar sem hann var fullur af eldmóði.

Kveðja frá félagslega vandræðalegum og einhverfum manni

Einnig hefur annar sagnfræðingur, Aaron Astor, vísað ásökununum á bug.

Segir hann hins vegar kveðjuna ekki hafa verið nasistakveðju heldur kveðju frá félagslega vandræðalegum og einhverfum manni sem hafi verið að segja fólki að hjarta sitt sé með þeim.

„Ég hef gagnrýnt Elon Musk margoft fyrir að leyfa nýnasistum að menga þennan vettvang,“ skrifaði Astor á X.

„En þessi bending er ekki nasistakveðja.“

Segir Astor að bendingin sé öllu heldur kveðja frá félagslega vandræðalegum og einhverfum manni sem hafi verið að reyna að koma þeim skilaboðum til stuðningsmanna sinna að hjarta sitt væri með þeim en Musk greindi frá því árið 2021 að hann væri með einhverfurófsröskunina Asperger-heilkenni.

Kveðja auðjöfursins vakti mikla athygli í gær.
Kveðja auðjöfursins vakti mikla athygli í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert