Viljum hvorki vera Danir né Bandaríkjamenn

Múte B. Eggede, formaður grænlensku landstjórnarinnar og flokksins Naalakkersuisut.
Múte B. Eggede, formaður grænlensku landstjórnarinnar og flokksins Naalakkersuisut. AFP/Mads Claus Rasmussen

„Okkar land og íbúar þess munu ákveða hvað mun gerast,“ sagði Múte B. Egede, formaður landstjórnar Grænlands, á blaðamannafundi sem lauk rétt í þessu í Nuuk á Grænlandi. „Önnur lönd geta ekki ákveðið hvað við gerum.“

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði í gær að Grænland væri nauðsynlegt fyrir Bandaríkin og hann væri sannfærður um að Danir myndu koma til í því máli.

Egede ítrekaði að það væru Grænlendingar, sem myndu ákveða framtíð landsins, ekki Trump. Grænland væri ekki til sölu. „Við viljum ekki vera Danir og og við viljum heldur ekki vera Bandaríkjamenn,“ sagði Egede. Lykillinn væri pólitískt samráð og samstarf.

Egede kvaðst geta skilið að áhyggjur hefðu gripið um sig meðal Grænlendinga eftir að landið lenti í þungamiðju heimsstjórnmálanna. Því væri rétt að hvetja til stillingar og einingar og samvinnu, þar á meðal milli pólitískra hreyfinga á Grænlandi.

Vivian Motzfeldt, ráðherra sjálfstæðis- og utanríkismála í landstjórninni, var einnig á blaðamannafundinum. „Við reynum að koma á samstarfi við liðsmenn nýja forsetans,“ sagði hún og bætti við að það ætti að vera samstaða um að efla Grænland: „Við eigum að geta unnið saman í ró og friði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert