Bréf Bidens til Trumps: „Megi Guð blessa þig“

Fyrir fjórum árum skrifaði Trump bréf til Bidens þegar Biden …
Fyrir fjórum árum skrifaði Trump bréf til Bidens þegar Biden tók við embættinu. Fjórum árum seinna skrifaði Biden bréf til Trumps. Um er að ræða hefð frá árinu 1989. AFP/Chip Somodevilla

Áralöng hefð er fyrir því að fráfarandi Bandaríkjaforseti skrifi arftaka sínum bréf og sú hefð hélt áfram við valdaskiptin í Hvíta húsinu á mánudaginn. 

„Er ég yfigef þetta helga embætti óska ég þér og fjölskyldu þinni alls hins besta á næstu fjórum árum. Bandaríkjamenn og fólk um heim allan horfa til þessa húss í leit að stöðugleika í óhjákvæmilegum stormum sögunnar og mín bæn er að á næstu árum verði tími hagsældar, friðar og náðar fyrir þjóð okkar,“ skrifaði Joe Biden.

Bréfið skildi hann eftir fyrir Donald Trump Bandaríkjaforseta í skúffu forsetaskrifborðsins á mánudaginn. Fox News greindi frá innihaldi bréfsins í dag.

„Megi Guð blessa þig og leiða þig eins og hann hefur blessað og leiðbeint okkar ástkæra landi frá stofnun,“ skrifaði Biden.

Fann bréfið eftir spurningu blaðamanns

Á mánudag fann Trump bréfið eftir að blaðamaður Fox News, Peter Doocy, spurði hvort Biden hefði skilið bréf eftir.

„Hann kann að hafa gert það. Skilja þeir það ekki eftir á skrifborðinu? Ég veit það ekki,“ sagði Trump við Doocy áður en hann uppgötvaði bréfið í skúffu Resolute-skrifborðsins.

„Takk, Peter. Það hefðu getað liðið mörg ár áður en við fundum þetta.“

Hér má sjá þegar Trump fann bréfið fyrir framan blaðamenn. …
Hér má sjá þegar Trump fann bréfið fyrir framan blaðamenn. Bréfið var í hvítu umslagi stílað á „47“ þar sem Trump er 47. forseti Bandaríkjanna. AFP/Jim Watson

„Þetta var mjög fallegt bréf“

Trump sagði við blaðamenn í gær að honum hafi þótt vænt um bréfið frá Biden.

„Þetta var mjög fallegt bréf,“ sagði Trump við blaðamenn.

Ronald Reagan hóf þessa hefð þegar hann yfirgaf Hvíta húsið og George H.W. Bush tók við embættinu árið 1989. Síðan þá hafa allir forsetar skilið eftir bréf fyrir arftaka sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert