Nýr gróðureldur hefur blossað upp í Los Angeles-sýslu og hefur það leitt til rýmingar á svæði sem er enn að glíma við einhverja verstu gróðurelda í sögu sýslunnar.
Eldurinn er kallaður Hughes-eldurinn og breiðir hann nú hratt úr sér norður af borginni Los Angeles.
Eldurinn þekur yfir fimm þúsund ekrur og sterkir vindar gera það að verkum að hann breiðir hratt úr sér. Að svo stöddu hefur hann ekki náð til heimila eða annarra bygginga.
Eldurinn logar í grennd við bæinn Castaic, úthverfi í norðurhluta Los Angeles-sýslu, og íbúum í næsta nágrenni við Castaic-vatn hefur verið skipað að rýma heimili sín.
Veðurstofa Bandaríkjanna setur útbreiðslu eldsins í samhengi með því að benda á það að eldurinn breiði úr sér á stærð við fótboltavöll á hverjum tveimur til þremur sekúndum.
Tveir aðrir eldar hafa blossað upp lengra suður nær San Diego og Oceanside en þeir eru talsvert minni.
Gróðureldar í sýslunni hófust 7. janúar og eru með þeim verstu í sögu svæðisins.
Í hið minnsta 27 manns hafa farist í eldunum og þeir hafa eyðilagt um 16.000 hektara af landsvæði.
Palisades-eldurinn og Eaton-eldurinn voru skæðastir og eru enn í gangi, þó búið sé að ná tökum á þeim að miklu leyti.