Yfirvöld í Austurríki hafa handtekið fyrrverandi fasteignamógúlinn Rene Benko en hann hefur lengi verið til rannsóknar hjá saksóknurum vegna gruns um svik og spillingu á meðal annarra brota.
Benko var eitt sinn á meðal ríkustu manna Austurríkis en hann stofnaði fasteignafyrirtækið Signa Holding árið 2000 og naut góðs af. Samsteypan hrundi hins vegar árið 2023 og hóf að fara í gegnum stærstu gjaldþrotaskipti í sögu Austurríkis.
Í yfirlýsingu frá ríkissaksóknara efnahagsbrota og spillingar í Austurríki kemur fram að Benko hafi reynt að leyna eignum sínum t.a.m. með sjálfseignastofnunum og reynt að komast hjá yfirvöldum, fjárvörsluaðilum og kröfuhöfum.
Á meðal eigna sem Benko er sakaður um að hafa falið til að koma í veg fyrir að kröfuhafar fengju aðgang að þeim eru „dýr vopn, úr og aðrir hlutir“.
Hafa yfirvöld í landinu undanfarna mánuði hlerað farsíma Benko og yfirheyrt viðskiptafélaga hans sem og starfsmenn.
Benko var yfirheyrður af austurrískum yfirvöldum í desember síðastliðnum eftir að handtökuskipun á hendur honum hafði borist frá Ítalíu og öðrum stöðum vegna spillingar.
Á meðal eigna Signa-samsteypunnar voru t.a.m. Chrysler-byggingin í borginni New York og nokkrar verslunarkeðjur í Evrópu.
Gjaldþrotameðferð fyrirtækisins mun miða að því að endurgreiða kröfuhöfum frá Evrópu en einnig frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Taílandi sem eru að krefjast nokkurra milljarða evra.