Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn vinna nú hörðum höndum að því að veita íbúum á Gasasvæðinu aðstoð. Komið hefur verið á söfnun þar sem einstaklingar geta styrkt hjálparsamtökin við stuðning þeirra á svæðinu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rauða krossinum á Íslandi.
„Vopnahlé er komið á og þörfin fyrir hjálp er gífurleg. Yfir 1,9 milljónir Palestínufólks eru á vergangi á Gaza, og 92% íbúðarhúsnæðis hefur orðið fyrir skemmdum,“ segir í tilkynningunni.
Vinna samtökin nú hörðum höndum að því að veita fólki aðgang að heilbrigðisþjónustu, mat, skjóli og hreinu vatni.
Einnig styðja samtökin við sjúkrabílaþjónustu og sjúkrastofnanir, dreifingu á tjöldum og nauðsynjavörum fyrir heimili og sálfélagslegan stuðning fyrir börn og fullorðna.
Þá nær aðstoðin einnig til Vesturbakkans og Palestínufólks á vergangi í nágrannalöndum.
Einstaklingar geta styrkt söfnunina hér en einnig er bent á aðrar styrktarleiðir:
Hringja í 904-1500 til að styrkja um 1.500 kr.
Hringja í 904-2500 til að styrkja um 2.500 kr.
Hringja í 904-5500 til að styrkja um 5.500 kr.
Aur/Kass: @raudikrossinn
Söfnunarreikningur Rauða krossins: 0342-26-12, kt. 530269-2649
SMS: Senda HJALP í símanúmerið 1900 (2.900 kr.) (Síminn og Nova)