Bandaríska fyrirtækið Amazon hefur ákveðið að loka öllum sjö starfsstöðvum sínum í Quebec í Kanada á næstu vikum. Hátt í 1.700 manns munu missa störf sín á næstu tveim mánuðum vegna ákvörðunarinnar.
Talsmaður Amazon segir ákvörðunina koma vegna hagræðingar innan fyrirtækisins og að hún tengist ekki ákvörðun 300 starfsmanna í Laval-borg í Quebec að ganga í stéttarfélag.
Þeir starfsmenn sem gengu nýlega í stéttarfélag hafa lýst óviðunandi vinnuaðstæðum á starfsstöðvum sínum þar sem þau segja vinnuhraðann mikinn, ekki sé gætt að heilbrigðis- og öryggisráðstöfunum og að þau fái greidd of lág laun.
Nedim Sab, eftirlitsmaður starfsstöðvarinnar í Laval, sagði í samtali við CBC að starfsmönnum fyrirtækisins hafi verið brugðið við að heyra fréttirnar. Segir hann fólk hafi brugðist í grát.
„Hvað gerum við núna? Við þurfum að byrja upp á nýtt. Áður var ég bílstjóri og nú er ég eftirlitsmaður. Þeir ætla að eyðileggja allt fyrir mér,“ sagði Sab.
Hann kenndi stéttarfélaginu um lokun starfsstöðvanna og sagði að Amazon hafi verið óánægt með ákvörðun starfsmannanna. Sagðist hann sjálfur ekki sjá þörf á stéttarfélagi.