Milei: „Sakleysisleg handahreyfing“

Javier Milei ávarpaði ráðstefnuna í Davos.
Javier Milei ávarpaði ráðstefnuna í Davos. AFP

Javier Milei, forseti Argentínu, kom auðjöfrinum Elon Musk til varnar fyrr í dag á viðskiptaráðstefnunni í Davos.

Musk hefur verið mikið til umræður eftir að hafa virst heilsa að nasistasið á samkomu repúblikana við innsetningarathöfn Donalds Trump.

„Góðvinur minn, Elon Musk, hefur verið svívirtur á ósanngjarnan hátt vegna „woke“–hugmyndafræði sökum sakleysislegrar handahreyfingar sem endurspeglar einungis þakklæti hans gagnvart fólkinu,“ sagði Milei í Davos fyrr í dag.

Musk virtist heilsa að nasistasið og deilt hefur verið um …
Musk virtist heilsa að nasistasið og deilt hefur verið um meininguna að baki. AFP

Alþjóðlegt bandalag að myndast

Javier Milei hrósaði Musk sem er einn helsti helsti stuðningsmaður Donalds Trump, Bandaríkjaforseta.

Milei opinberaði einnig aðdáun sína á ýmsum þjóðarleiðtogum eins og Trump, Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, Giorgiu Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands og Nayib Bukele, forseta El Salvador.

„Hægt og rólega er alþjóðlegt bandalag að myndast á milli ríkja sem vilja vera frjáls og trúa á hugmyndafræði frelsisins,“ sagði Milei í ræðu sinni.

Í lok ávarpsins beindi Milei svo spjótum sínum að viðskiptaráðstefnunni. 

„Ráðstefnur eins og þessar hafa verið kyndilberar af þessari hryllilegu „woke“-hugmyndafræði sem hefur valdið gífurlegum skaða á Vesturlöndum. Heilaveiran sem „woke“-hugmyndafræðin hefur valdið er krabbamein sem þarf að fjarlægja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert