„Þetta er svakalega öflug lægð, svokölluð sprengilægð, og það verður mikill hvellur á Írlandi, Norður-Írlandi og í Skotlandi af völdum hennar.“
Þetta segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur á Bliku, í samtali við mbl.is um ofsaveðrið Jóvin sem spáð er að gangi yfir Bretlandseyjar næsta sólarhring.
Veðurstofa Írlands hefur gefið út rauða viðvörun fyrir alla eyjuna. Fjölmörgum flugferðum hefur verið aflýst, skólum verður víða lokað og almenningssamgöngur munu raskast verulega.
„Þó svo að djúpar lægðir séu ekki óalgengar á Atlantshafi þá er fátítt að fá svona djúpa lægð alveg ofan í Írlandi,“ segir Einar og bendir á að lægðin dýpki mjög hratt á leið sinni austur yfir hafið.
Einar segir að menn hafi haft ágætan tíma til að undirbúa sig því veðrið hafi verið í kortunum í nokkuð langan tíma og ætti því ekki að koma neinum á óvart. Lægðinni fylgi mikið hvassviðri og vatnsveður.
„Svo er annað sem bætist við á Írlandi en það er hættan á sjávarflóðum. Spáð er 11-13 metra öldu sem skellur á Suðvestur-Írlandi,“ segir Einar.
„Það má reikna með að mesti vindhraðinn verði á Vestur-Írlandi og ég sá flugvallarspána fyrir Dublin þar sem spáð er yfir 35 metrum á sekúndum í hviðum.“
Einar segir að óveðrið gangi líka yfir England og sérstaklega Norður-England. Því sé spáð að vindur fari um og yfir 20 metra á sekúndu í kringum Lundúnir og þykir það duga til að setja allt úr skorðum á því svæði.
Hann segir að lægðin gangi hratt yfir rétt norður af nyrsta hluta Englands og síðan áfram yfir Skotland.
Einar fjallar um óveðrið sem í vændum er á Facebook-síðu sinni en þar segir hann að eitt af því sem Írar óttist séu stormflóð og að sjór gangi hreinlega á land á vesturströndinni.
Það hafi oft gerst en flóðavarnir séu vissulega betri og umfangsmeiri en áður var.