Hundruð samkynhneigðra og trans fólks hafa gengið í það heilaga í Taílandi eftir að ný lög sem heimila slíkar giftingar tóku gildi.
„Við börðumst fyrir þessu í áratugi. Dagurinn í dag er stórmerkilegur, dagur þar sem ást er ást,“ segir Sappanyoo Arm Panatkool sem gekk til að eiga Apiwat Porsch Apiwatsayree á skrifstofu sýslumanns í Bangkok.
Taíland er þar með orðið langfjölmennasta landið í Asíu til að leyfa hjónabönd hinsegin fólks.
„Í dag blakar regnbogafáninn stoltur yfir Taílandi,“ segir Paetongtarn Shinawatra, forsætisráðherra Taílands.
Í nýju löggjöfinni eru kynhlutlaus orð notuð í stað karls og konu, eiginmanns og eiginkonu. Hinsegin fólk öðlast jafnframt sömu réttindi og hafa fylgt hjónaböndum gagnkynhneigðra, eins og réttinn til að erfa hvert annað og ættleiða.
Þá nær löggjöfin einnig til trans fólks.