Undir áhrifum fjórtán ára Svía

Frá vettvangi skotárásarinnar í Antioch-skólanum á miðvikudeginum. Árásarmaðurinn sótti sér …
Frá vettvangi skotárásarinnar í Antioch-skólanum á miðvikudeginum. Árásarmaðurinn sótti sér meðal annars innblástur til fjórtán ára gamals sænsks drengs sem tilheyrir félagsskap djöfladýrkenda á samskiptamiðlinum Telegram. Ljósmynd/Lögreglan í Nashville/Metro Nashville Police Department

Unglingspiltur, sem skaut tvo nemendur, annan þeirra til bana, í matsal Antioch-framhaldsskólans í Nashville í Tennessee í Bandaríkjunum á miðvikudagsmorgun, er talinn hafa sótt sér innblástur til verknaðarins hjá fjórtán ára gömlum pilti sem stakk tvo eldri borgara, mann og konu, í Hässelby í norðvesturútjaðri sænsku höfuðborgarinnar Stokkhólms í október.

Frá þessu greina fréttamenn Uppdrag granskning- og SVT Veriferar-þátta sænska ríkisútvarpsins SVT eftir að hafa farið gegnum rúmlega 50 síðna stefnuyfirlýsingu sem Solomon Henderson skildi eftir sig áður en hann gekk inn í matsal skólans í fyrradag og hleypti sautján skotum af hálfsjálfvirkri skammbyssu á tíu sekúndum. Fór hann að lokum sömu leið og margur skotárásarmaðurinn og beindi vopninu að sjálfum sér.

Tilheyrði stafrænu trúfélagi djöfladýrkenda

Sendi hann hluta árásarinnar beint út gegnum ástralska samfélagsmiðilinn Kick. Stefnuskrá sína birti hann hins vegar á samfélagsmiðlinum X og er hún nú rannsóknargagn lögreglunnar í Nashville. Af stefnuskránni má ráða að árásin í Hässelby hafi verið Henderson vel þóknanleg.

Drengurinn sem stakk eldri borgarana tilheyrir félagsskap á samfélagsmiðlinum Telegram sem kallar sig 764 og lýsa hugmyndafræðingar hópsins honum sem trúfélagi sem leggi stund á djöfladýrkun. Ekki er 764 þó opinberlega skráð trúfélag innan nokkurs ríkis heimsins svo vitað sé. Átta árásir í Svíþjóð hafa verið tengdar félaginu og birta „sóknarbörnin“ myndskeið af árásum sínum eða meðvitundarlausum fórnarlömbum.

Í stefnuskrá sinni bregður Henderson fyrir sig orðræðu nasisma og kveðst hatast við minnihlutahópa. Fyrirlitningu í garð eigin kynþáttar er einnig að finna þar, en Henderson var þeldökkur.

Þess utan styðst hann við hugmyndafræði sem kallast „accelerationism“ eða „hröðunarstefna“ og er sú stefna þeirra öfgamanna, er hana aðhyllast, að flýta því að mannleg samfélög falli saman, en þeir telja einsýnt að þróunin stefni hvort eð er í þá átt.

SVT

SVT-II (fjallað um satanistahópinn 764)

ABC News (árásin í Nashville)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert