Mannréttindalögfræðingurinn Pernille Benjaminsen, segir heita umræðu, um framtíð Grænlands á undanförnum vikum, í kjölfar viljayfirlýsingar Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um að Bandaríkin eignist landið, hafa afhjúpað niðurlægjandi orðræðu og brenglaða sýn á Grænland og grænlensku þjóðina í Danmörku.
Þetta segir hún í aðsendri grein í tímaritinu Ræson í Danmörku en Ræson er óháð fréttatímarit um stjórnmál bæði innan og utan Danmerkur skrifað af sérfræðingum í stjórnmálum og blaðamönnum.
Segir Pernille í grein sinni að bæði sé algengt og viðurkennt í Danmörku að tala niðrandi um Grænland og Grænlendinga. Eigi það jafnt við um stjórnmálamenn, sérfræðinga og almenning. Danskir fjölmiðlar hafi einnig spilað stórt hlutverk, sem málpípur um hlutdræga umfjöllun um ástandið. Segir hún umræðuna hafa verið fáránlega.
Pernille segir Danmörk hafa skotið sig í fótinn. Að minnsta kosti ef viljinn sé að viðhalda óbreyttu ástandi milli Grænlands og Danmerkur. Frá grænlensku sjónarhorni hafi umræðan farið um eins og eldur í sinu og því sé Grænland í sterkari stöðu gagnvart Danmörku.
„Nú virðist vera bylting og ný viðbrögð – bæði pólitískt og í dönskum fjölmiðlum, sem eru í auknum mæli farnir að láta grænlenskar raddir heyrast.“
Pernille segist gera sér grein fyrir að ekki allir Danir tali niðrandi um Grænland og Grænlendinga en segir engu að síður um miklu víðtækara vandamál að ræða en flestir gera sér grein fyrir.
Nefnir hún máli sínu til stuðnings lykkjumálið svo kallaða þegar getnaðarvörninni lykkjunni var komið fyrir í um 4.500 grænlenskum unglingsstúlkum allt niður í þrettán ára aldur án þeirra vitundar eða foreldra þeirra.
Þá nefnir hún deiluna um þátttöku Grænlands í Norðurlandaráði og málið um sendiherrastöðuna í Norðurskautsráðinu, tungumálaumræðuna á þjóðþinginu og lætin um notkun danskra sveitarfélaga á uppeldisprófum sem ekki eru aðlöguð að menningu.
Einnig nefnir mannréttindalögfræðingurinn orðræðu einstakra þingmanna í danska þinginu. Segir hún virðast vera víðtæka samstöðu um að Grænland sé háð Danmörku og standi í þakkarskuld við Dani fyrir það hlutverk sem Danir hafa gegnt fyrir Grænland í gegnum tíðina.
Þá virðist henni vera útbreidd skoðun að Danir hafi bjargað Grænlendingum frá frumstæðu lífi fátæktar.
„Listinn er langur og sýnir niðrandi orðræðu um að Grænlendingar séu vanhæft og rökþrota fólk sem geti ekki gætt hagsmuna sinna. Sú skoðun er því miður ríkjandi að réttlætanlegt sé að tala neikvætt um Grænland.“
Pernille segir engan á Grænlandi, hvorki stjórnmálamenn, fjölmiðla né almenning, hafa höndlað ástandið á jafn hvatvísan máta og gert hefur verið í Danmörku.
Telur hún að auðvelt hefði verið að meðhöndla ástandið á varlegri og taktískari máta með því að veita grænlenskum og dönskum stjórnvöldum vinnufrið sem hefði gefið þeim tækifæri til að upplýsa Bandaríkin með einni röddu um að ríkisstjórnirnar tvær hefðu sameiginlega afstöðu til framtíðar Grænlands.
„Enginn á Grænlandi sneri sér að Danmörku og krafðist tafarlausra aðgerða,“ segir Pernille. Ástandinu hafi verið tekið af yfirvegaðri ró á Grænlandi því allir séu sammála um að aðstæður sem þessar krefjast vandlegrar umhugsunar þar sem forðast er skyndiákvarðanir.
Það sem hafi þó gerst er að umræðan hafi drukknað í skelfingu lostinni umfjöllun danskra fjölmiðla, sem leituðu til hvers dansks stjórnmálamanns á fætur öðrum, sem fúsir voru til að deila skoðunum sínum á vanhæfni Grænlands til að takast á við ástandið.
Meðferð málsins hefur bitnað á Danmörku að mati Pernille. Segir hún að skýr skilaboð hafi verið send til Bandaríkjanna um að sambandinu milli Grænlands og Danmerkur sé ögrað og að ljósi hafi verið varpað á meðferð Dana og Danmerkur á Grænlandi.
Frá grænlensku sjónarhorni hafi atburðarásin hins vegar verið til hagsbóta. Mikill áhugi á Grænlandi hafi gefið dönskum stjórnvöldum hvata til að finna lausnir á áskorunum sem hafa ekki verið í forgangi undanfarið.
Pernille segir að grænlenska þjóðin krefjist eins konar samnings við skekkta sýn Dana á Grænlandi.
„Danska samveldið eins og við þekkjum það í dag á sér ekki framtíð – það krefst nýrrar hugsunar,“ segir Pernille Benjaminsen mannréttindalögfræðingur.