Íbúar Bretlandseyja eiga ekki sjö dagana sæla hvað veður snertir á öndverðu árinu 2025 og sannast þar hið fornkveðna að sjaldan er ein báran stök.
Í kjölfar manndrápsveðursins Jóvins siglir stormurinn Herminía og hefur þegar orðið tilefni gulra viðvarana í hinu fyrrverandi breska heimsveldi þar sem sagt var á nýlendutímanum að sólin settist aldrei. Nú virðist hún sest í bili.
Varar breska veðurstofan við því að Herminía, sem þegar hefur gert Spánverjum og Frökkum nokkra skráveifu – þó aðeins í afmörkuðum hlutum heimalanda þeirra – geti vel fært með sér hættu á slysum á fólki og jafnvel lífshættu. Kostaði Jóvin tvö mannslíf.
Flestar gilda veðurviðvaranirnar um England–, en á Norður-Írlandi, Wales og í suðurhluta Skotlands spáir hömlulausri úrkomu í nótt og á morgun.
Á Suðvestur-Englandi hefur Herminía þegar valdið rafmagnsleysi á heimilum þúsunda íbúa auk þess sem fregnir hafa borist af flóðum, en þetta er einmitt sá hluti Englands sem slapp að mestu við Jóvin. Hvetur veðurstofan íbúa þar á svæðinu til að halda sig fjarri ströndum vegna ógnarkrafts þess brims er búast megi við að þvoi hin skreipu sker og gangi í kjölfarið langt upp á land.
Þegar hafa flóð sett samgöngur úr skorðum og má þar nefna lestina er gengur milli Par og Newquay í Cornwall. Lágu ferðir hennar niðri í morgun, sunnudag, en er líða tók á daginn rættist úr því. Þá hefur flugferðum verið frestað eða þær felldar alveg niður á flugvellinum í Newquay áðurnefndu og Exeter-flugvelli í Devon.
Vindhraði í hviðum hefur mælst allt að 37,1 metri á sekúndu, á Berry Head í Devon í morgun, sem þó er nokkuð langan veg frá því 80 ára vindhraðameti sem Jóvin sló með 50,8 sekúndumetrum á föstudaginn.
Það var spænska veðurstofan Agencia Estatal de Meteorología sem gaf Herminíu nafn sitt á föstudaginn þegar hún fór með oddi og egg um Norður-Spán og blés þá allt að 27,7 metrum á sekúndu. Á þetta blása Englendingar, en samkvæmt þeirra kerfi nær veður þetta ekki upp í þann lágmarksofsa að nafngift teljist verðskulduð.
Fræg fyrir breskan oflátungshátt er enda gömul fyrirsögn breskra fjölmiðla frá því þoka lá yfir Ermarsundi einhvern tímann á öldinni sem leið: „Þoka á Ermarsundi – Evrópa einangruð“.