Hryðjuverkasamtökin Heilagt stríð segja Bandaríkjaforseta hvetja til stríðsglæpa með hugmyndum sínum um að flytja Palestínumenn frá Gasasvæðinu. Hamassamtökin segjast ætla að beita sér gegn hugmyndinni en fjármálaráðherra Ísraels segir hana frábæra.
Donald Trump Bandaríkjaforseti stakk upp á því í gær að flytja alla íbúa Gasasvæðisins til Egyptalands og Jórdaníu.
Palestínsku hryðjuverkasamtökin Heilagt stríð fordæma hugmyndir Trumps um að flytja Gasabúa til annarra landa og segja slíkt hvetja til stríðsglæpa.
Samtökin lýsa hugmyndum Trumps sem fráleitum. „Þessi tillaga fellur innan þess ramma að hvetja til stríðsglæpa og glæpa gegn mannkyninu með því að neyða þjóð okkar til að yfirgefa land sitt.“
Bassem Naim, háttsettur embættismaður Hamas, sagði við AFP-fréttaveituna í dag að samtökin myndu mótmæla hugmynd Trumps.
„Eins og þeir hafa komið í veg fyrir allar áætlanir um fólksflutninga [...] síðustu áratugi, mun þjóðin okkar einnig koma í veg fyrir slík verkefni,“ sagði Naim.
Bezalel Smotrich, fjármálaráðherra Ísraels, fagnar hugmynd Trumps en hann er mikill andstæðingur þess að stöðva stríðið á Gasa.
„Það er frábær hugmynd að hjálpa þeim að finna sér aðra staði til að hefja betra líf. Eftir að hafa vegsamað hryðjuverk í mörg ár munu þau geta stofnað nýtt og gott líf á öðrum stöðum,“ sagði Smotrich í yfirlýsingu.
„Aðeins útsjónarsamir hugsunarhættir með nýjum lausnum munu leiða til friðar- og öryggislausna.
Ég mun með guðs hjálp vinna með forsætisráðherranum og ríkisstjórninni að því að tryggja að það liggi fyrir aðgerðaáætlun til að hrinda þessu í framkvæmd eins fljótt og auðið er,“ sagði Smotrich.