Tesla Cybertruck – að sumra mati ekki lögulegasta bifreiðin sem sést hefur á vegum heimsins – hefur nú hlotið samþykki þar til bærra norskra yfirvalda til að aka um stræti og torg þar í landi og hefur fyrirtækið Norwegian Machinery, sem flytur inn bifreiðar frá Bandaríkjunum, fengið til landsins fyrstu Cybertruck-bifreiðina sem skarta mun norskum skráningarnúmerum.
Grunnverðið er 1.750.000 krónur norskar, jafnvirði 21,8 milljóna íslenskra króna.
Það er viðskiptadagblaðið Finansavisen sem greinir frá þessum tímamótum og ætti hinn almenni Norðmaður að kætast nokkuð þar sem groddaleg kassalaga ökutæki eru gjarnan ofarlega á vinsældarlistum norskra bíladellukarla og -kerlinga, helst með aldrifi og viðbættum ótal ljóskösturum svo sigrast megi á myrkustu aðstæðum Norður-Noregs og helst sjá elg á veginum kílómetra áður en hætt verður við árekstri.
Hægt hefur gengið að fá evrópsk yfirvöld til að samþykkja hið ferkantaða stálferlíki, almennt á þeirri forsendu að bifreiðin sé einfaldlega stórhættuleg gangandi vegfarendum, og greindi norska tæknivefritið Tek.no frá því í ágúst 2020 að Tesla Cybertruck kæmi aldrei til Evrópu.
Skrifar sama rit nú að þess vegna sé það með ólíkindum að bifreiðin fái að koma til Noregs, enda þekkt að norsk stjórnsýsla er almennt séð álíka ferköntuð og Cybertruck.
Smáa letrið er þó á sínum stað. Til þess að aka Tesla Cybertruck um norska vegi þarf ökumaður að hafa meirapróf upp á vasann, ökuskírteini í flokki C.
Per Eskeland, framkvæmdastjóri Norwegian Machinery, hefur enda átt ófáa fundina með norsku umferðarstofunni og vegagerðinni Statens vegvesen síðan í nóvember í þeirri viðleitni sinni að fá að flytja Cybertruck inn og að lokum brostu heillagyðjur samgöngumála við honum og innflutningsleyfið var í höfn.
„Þetta er fyrst og fremst rosalega gaman,“ segir Eskeland við bíladelluþáttinn Broom á TV2, „loksins getum við staðfest að Tesla Cybertruck sé vottaður og klár á norska vegi,“ segir hann enn fremur og þverneitar að ræða, vegna samkeppnissjónarmiða, hvernig hann náði leyfinu í gegn. Einhverjar breytingar hafi þurft að gera og vitað er að ein þeirra er sú að Cybertruck verður aðeins leyfður þriggja sæta í Noregi vegna þyngdar sinnar sem er rúm þrjú tonn.
Þá fylgir ekki sögunni hvort allar þrjár gerðir Cybertruck verða leyfðar á norskum vegum, það er afturdrifinn, fjórhjóladrifinn eða útgáfan sem kallast einfaldlega „Cyberbeast“ og skilar 845 hestöflum, hinar tvær 315 og 600. Hámarkshraði er læstur við 180 kílómetra miðað við klukkustund í tveimur aflminni gerðunum en Cyberbeast útgáfunni, rúmum þremur tonnum af æðandi stáli, má aka á 210 kílómetra hraða.
Í Noregi má verða sér úti um allt að 30 daga óskilorðsbundið fangelsi fyrir hraðakstur og kemur ökuleyfissvipting til viðbótar við þá refsingu. Í einu nýlegu tilfelli, 230 kílómetra hraða á E18-brautinni í Vestfold-fylki í maí 2023, þar sem leyfður hraði er 110, stóð jafnvel til að dæma 36 daga fangelsi auk þriggja ára ökuleyfissviptingar. Þar sem málsmeðferð hafði dregist úr hömlu dæmdi héraðsdómur hins vegar 30 daga fangelsi auk áðurnefndrar ökuleyfissviptingar.
Tesla Cyberbeast á 210 kílómetra hraða við sömu aðstæður yrði því væntanlega tilefni minnst 36 daga bak við lás og slá – í dæminu hér að ofan ók ökumaður Mercedes Benz AMG með á sjötta hundrað hestafla undir vélarhlífinni.