Tyrknesk yfirvöld hafa handtekið 19 manns í tengslum við rannsókn á eldsvoðanum á skíðahóteli í Bolu í Kartalkaya í Tyrklandi í síðustu viku.
78 manns létu lífið í eldsvoðanum. Meðal þeirra sem eru í haldi er aðstoðarborgarstjórinn í Bolu, framkvæmdastjóri og forstjóri hótelsins og yfirmaður slökkviliðsins í Bolu.
Ali Yerlikaya, innanríkisráðherra Tyrklands, segir að 238 manns hafi dvalið á skíðahótelinu en eldurinn kviknaði á fjórðu hæð hótelsins og breiddist hann hratt um bygginguna.
Rannsókn yfirvalda beinist meðal annars að eldvarnarráðstöfunum á lúxushótelinu en grunur leikur á um að þær hafi verið vanræktar. Gestir hótelsins sem komust lífs af og sérfræðingar segja að brunaviðvörunarkerfi hótelsins hafi ekki virkað.