Dæmdur fyrir að nauðga sjúklingum sínum

Læknirinn neitar sök og hyggst áfrýja dómnum.
Læknirinn neitar sök og hyggst áfrýja dómnum. Ljósmynd/Colourbox

Þýskur læknir á sextugsaldri hefur verið dæmdur í sex og hálfs árs fangelsi fyrir að hafa nauðgað kvenkyns sjúklingum sínum á meðan þeir gengu undir ristilspeglun hjá honum.

Var lækninum, sem AFP nafngreinir sem Wolfgang H, gefið að sök að hafa 17 sinnum nauðgað sjúklingunum og fóru saksóknarar fram á að hann yrði dæmdur í átta ára fangelsi. Málið var tekið fyrir í Munchen.

Aðstoðarmenn urði vitni að brotunum

Hefur læknirinn verið sakfelldur fyrir að hafa ítrekað sett fingur sinn í leggöng kvennanna þegar hann framkvæmdi á þeim ristilspeglun á árunum 2017 til 2021.

Þýskir miðlar hafa greint frá því að konurnar voru svæfðar fyrir ristilspeglanirnar en fjórir aðstoðarmenn læknisins hafi orðið vitni að brotunum og loksins vakið á þeim athygli.

Neitar sök og hyggst áfrýja

Var það mat dómstólsins að framburður aðstoðarmannanna hafi verið stöðugur og ítarlegur. Einnig var horft til þess að aðstoðarmennirnir hafi tilkynnt brotin löngu eftir að þau gerðust sökum hræðslu við lækninn.

Læknirinn hefur neitað sök og hyggst áfrýja dómnum. Honum hefur þó ekki verið meinað að halda áfram að starfa sem læknir þar sem engar vísbendingar voru um að hann hafi framið frekari afbrot eftir að hann var tilkynntur til yfirvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert