Fyrirskipaði loftárásir í Sómalíu

„Þessir morðingjar, sem við fundum í felum í hellum, ógnuðu …
„Þessir morðingjar, sem við fundum í felum í hellum, ógnuðu Bandaríkjunum og bandamönnum okkar,“ skrifaði Trump á samfélagsmiðlum. AFP

Donald Trump segist hafa fyrirskipað loftárásir á háttsettan leiðtoga og fleiri sem tilheyra hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við Íslamska ríkið í Sómalíu.

BBC greinir frá.

„Þessir morðingjar, sem við fundum í felum í hellum, ógnuðu Bandaríkjunum og bandamönnum okkar,“ skrifaði Trump á samfélagsmiðlum.

„Árásirnar eyðilögðu hellana sem þeir búa í og drápu marga hryðjuverkamenn án þess að skaða almenna borgara á nokkurn hátt.“

Forsetinn endaði færslu sína á samfélagsmiðlum með: „Skilaboðin til ISIS og allra annarra sem reyna að ráðast á Bandaríkjamenn eru að „VIÐ MUNUM FINNA YKKUR, OG VIÐ MUNUM DREPA YKKUR!“

Engir almennir borgarar hafi særst

Í yfirlýsingu sagði Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna,að margir hryðjuverkamenn hefðu fallið í loftárásunum og engir almennir borgarar hefðu særst.

Hegseth sagði árásirnar „rýra enn frekar“ getu Íslamska ríkisins „til að skipuleggja og framkvæma hryðjuverkaárásir“ og „sendu skýrt merki um að Bandaríkin væru alltaf reiðubúin að finna og útrýma hryðjuverkamönnum.“

Þá sagði hann árásirnar hafa verið gerðar í Golis-fjöllum í norðurhluta Sómalíu.

Samstarf Sómalíu og Bandaríkjanna

Í færslu á X sagði skrifstofa forsetans í Sómalíu að Hassan Sheikh Mohamud forseti viðurkenndi óbilandi stuðning Bandaríkjanna í baráttunni gegn alþjóðlegum hryðjuverkum og fagnaði áframhaldandi skuldbindingu undir afgerandi forystu Donald Trump forseta.

Í færslunni sagði einnig að með þessu hefði Trump „styrkt öflugt öryggissamstarf Sómalíu og Bandaríkjanna í baráttunni gegn ógnum öfgahreyfinga“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert