Mjög færist nú í vöxt að norsk ungmenni undirgangist sérmeðferð þarlends barnaverndar- og refsivörslukerfis er sniðin er að ólögráða á aldursskeiðinu fimmtán til átján ára og gengur meðal annars út á eftirfylgni sem á norsku kallast ungdomsoppfølging og tekur frá 120 dögum upp í eitt ár. Skilyrði þess úrræðis eru að sá eða sú sem eftirfylgninnar nýtur sé á fyrrgreindum aldri og um refsiverð brot sé að ræða.
Utan um eftirfylgnina heldur sáttaráð, eða Konfliktrådet, og segir Atle Ringdalen, verkefnisstjóri málefna ungmenna þar, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að síðasta árið hafi málum fjölgað verulega, tilfelli ungmennarefsingar hafi verið 96 á móti 79 árið 2021 en eftirfylgni hafi 537 hlotið, en 421 árið 2010.
Ungmennarefsingin svokallaða skilur sig einkum frá eftirfylgninni með þeim hætti að lögregla og fangelsismálastofnun Noregs koma að henni, er hún ellegar sambærileg eftirfylgninni og í báðum tilfellum er sérstök verkáætlun gerð um að ungmennið hljóti uppreist síns lífs. Annar munur á þessum tveimur úrræðum felst í því að til vara liggur fangelsisrefsing í sérstöku ungmennafangelsi, en þau eru tvö í Noregi.
Rati ungmenni á glapstigu afbrota á nýjan leik meðan á eftirfylgnitímabili stendur mega þau reikna með að hafna bak við lás og slá annars þessara tveggja fangelsa.
Er þetta fátítt að sögn Ringdalen, fjögur af hverjum fimm ungmennum bæti ráð sitt og eigi afturkvæmt til lifnaðarhátta sem samræmast leikreglum mannlegs samfélags.
Fréttamönnum NRK veittist viðtal við ungmenni sem gengur einfaldlega undir nafninu „táningurinn“ og er viðmælandinn hvorki kyngreindur né aldursgreindur umfram það að hann er á táningsaldri.
Táningurinn hefur nýlokið við níu mánaða eftirfylgnitímabil í kjölfar þess er hann gerðist sekur um ofbeldi, þjófnað og akstur vélknúins ökutækis án þess að hafa nokkurn tímann öðlast réttindi til slíks.
„Áætlunin gengur út á að ég geti átt kerfisbundið líf. Eðlilegt líf. Ég fari í skóla, æfi og vinni,“ segir táningurinn við NRK og kveður lífið léttara eftir á. Hann hafi rofið tengsl við vini á refilstigu og stefni nú á að mennta sig. Finnst honum kerfið þá virka hvað hann snertir?
„Í hreinskilni finnst mér það já, en það gerir það ekki endilega fyrir alla unglinga,“ svarar táningurinn. „Sumir hafa kannski ekki nægan þroska til að takast á við þetta,“ telur hann enn fremur.
Tölfræði stafrænu ungmennakönnunarinnar Ungdata, sem heldur utan um fjölda tölfræðiþátta í lífi þeirra sem landið munu erfa, sýndi ískyggilegar tölur þegar könnunin var lögð fyrir í haust. Tilfellum, þar sem ungmenni urðu fyrir ofbeldi af hendi annarra ungmenna, hafði fjölgað um þrjú prósentustig frá árinu 2021, úr 20 prósentum í 23, auk þess sem ránstilfelli voru fleiri í fyrra en árin 2022 og ´23.
Þá hafði skemmdarverkum ungmenna fjölgað auk þess sem tíðni hnupls og slagsmála hafði aukist. Var því slegið fram í niðurstöðukafla að ungmenni sem snemma leiddust út í afbrot ættu oftar en ekki í hliðarvanda tengdum vímuefnum og geðrænum áskorunum.