Kanadíski forsætisráðherrann Justin Trudeau ávarpaði þjóð sína af sjónvarpsskjánum í gærkvöldi og sagði Donald Trump Bandaríkjaforseta stefna bandarískum iðnaði og neytendum í hættu með tollmúrum þeim er forsetinn nýkjörni reisti í gær gagnvart Kanada, Kína og Mexíkó og mbl.is sagði af.
Þurfa bandarískir innflytjendur nú að greiða 25 prósenta aðflutningsgjöld af vörum í fjölda vöruflokka frá Kanada og Mexíkó, en gagnvart Kínverjum lét Trump sér nægja að leggja tíu prósentustig ofan á þá tolla sem fyrir greiddust af kínverskum vörum.
Hafa Kínverjar boðað kvörtun til Viðskiptastofnunar Sameinuðu þjóðanna á meðan grannríki Bandaríkjanna tvö, Kanada og Mexíkó, hyggjast láta krók koma á móti bragði. Þannig boðaði Trudeau 25 prósenta ofurtolla frá og með þriðjudegi á ýmsar vörur sem Kanadabúar flytja inn frá Bandaríkjunum og Claudia Sheinbaum Mexíkóforseti hefur einnig boðað mótleik.
Kveðst Sheinbaum hafa gert fjármálaráðherra sínum að undirbúa aðgerðir til varnar mexíkóskum hagsmunum. Hvetur forsetinn þjóð sína til að halda áfram veginn með ró í sinni (e. cool head) auk þess sem hún virtist víkja að Trump í ávarpi á samkomu á föstudaginn, rétt eftir að Bandaríkjaforseti tilkynnti um tollana nýja. „Þegar við göngum til samninga við aðrar þjóðir og þegar við tölum við aðrar þjóðir eigum við að bera höfuðið hátt. Við mætum ekki fulltrúum annarra þjóða með hangandi haus,“ sagði Sheinbaum á föstudaginn.
Auk þess sem áður er getið sagði Trudeau í gær – og beindi orðum sínum þá til Bandaríkjanna – að tollar á kanadískar vörur settu störf Bandaríkjamegin í hættu. „[Tollarnir] auka kostnað ykkar, þar með talið við matinn úr búðinni og bensínið úr dælunni. Þeir skerða aðgengi ykkar að lífsnauðsynlegum vörum á viðráðanlegu verði, vörum sem tryggja öryggi Bandaríkjanna, svo sem nikkeli, kalíum, úrani, áli og stáli,“ sagði Trudeau.
Doug Ford, fylkisstjóri í Ontario, helsta iðnaðar- og viðskiptafylki Kanada, hafði uppi þau ummæli að gegn aðgerðum Trumps dygði ekkert annað en að láta hart mæta hörðu. „Kanada á ekki annars úrkosti en að slá til baka og slá fast. Kanada býr yfir svo mörgu sem Bandaríkin þarfnast – hágæðanikkeli og öðrum lífsnauðsynlegum steinefnum, orku og rafmagni, úrani, kalíum, áli. Við verðum að fullnýta þann vettvang sem við höfum til að halda sjó og gera það til hins ýtrasta,“ sagði fylkisstjórinn.