Ríkissaksóknari í Svíþjóð hyggst hvorki ákæra skipverja né búlgarska skipafélagið Navibulgar vegna grunsemda um að skip á vegum þess hafi átt aðkomu að skemmdarverki á sæstreng í Eystrasalti sem liggur á milli Svíþjóðar og Lettlands.
Rannsókn hefur leitt í ljós að engin skemmdarverk voru unnin á sæstrengnum, heldur var um óviljaverk að ræða af hálfu flutningaskipsins Vezhen. Sagði í yfirlýsingu saksóknara að krefjandi veðurskilyrði ásamt skorti á nauðsynlegum tækjabúnaði og vanþekkingu sjómanna hafi leitt til atviksins.
Tilheyrir kapallinn lettneska fjarskiptafyrirtækinu LMT og stofnuninni LSRTC sem rekur þá innviði sem nýttir eru til útsendinga ríkismiðla landsins, útvarps og sjónvarps.
Vart varð við skemmdir á strengnum fyrir um viku síðan og var skipið á nærliggjandi hafstæði þegar rof varð í strengnum. Var það sent til hafnar í Svíþjóð í kjölfarið.
Nokkur uggur hefur verið í Eystrasalti vegna mögulegrar aðildar Rússa að skemmdarverkum á sæstrengjum þar undanfarin misseri. Rannsókn í Finnlandi hefur t.d. beinst að skipi sem tilheyrir hinum svonefnda „skuggaflota“ Rússa, en talið er að áhöfn þess hafi viljandi dregið akkeri sitt eftir hafsbotninum, og þannig skemmt sæstreng í Eystrasalti í desember sem tengir saman Finnland og Eistland.