Enginn sigurvegari tollastríðs

Leiðtogar Evrópusambandsríkja funduðu í Brussel í morgun og gáfu það út í kjölfar fundar síns að enginn stæði uppi sem sigurvegari í tollastríði Bandaríkjanna og sambandsins.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði ESB mundu sýna klærnar kæmi til þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti reisti tollmúr gagnvart ríkjum sambandsins.

„Verðum við fyrir árás á vettvangi viðskipta þarf Evrópa – eins og réttnefnt stórveldi – að svara fyrir sig,“ sagði forsetinn.

„Ónauðsynlegt og heimskulegt“

Fundurinn í Brussel snerist þó ekki um tollastríð Trumps heldur varnarmál, enda var Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands viðstaddur auk Mark Rutte, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins NATO, sem ræddu viðbrögð við stríðsrekstri, meintum skemmdarverkum og njósnum Rússa við leiðtoga hinna 27 Evrópusambandsríkja.

Óhætt er þó að segja að dagskrá fundarins hafi verið í skugga útspils Trumps fyrir og um helgina sem í morgun sagði það svo enn fremur klárt mál að tollar yrðu lagðir á vörur frá ESB-ríkjum sem fluttar væru inn til Bandaríkjanna.

Lét Donald Tusk forsætisráðherra Póllands, sem nú fer með forsæti í ESB, þau orð falla að reyna yrði í lengstu lög að forðast „algjörlega ónauðsynlegt og heimskulegt“ viðskiptastríð.

Tollastríð yrði „slæmt fyrir Bandaríkin, slæmt fyrir Evrópu“ sagði Olaf Scholz Þýskalandskanslari og hvatti heldur til samvinnu yfir Atlantsála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert