Mexíkó sendir 10.000 hermenn: Trump frestar tollum

Mexíkóskir hermenn. Tíu þúsund úr þeirra röðum verða sendir til …
Mexíkóskir hermenn. Tíu þúsund úr þeirra röðum verða sendir til landamæranna að sögn forsetans. AFP

Bandaríkin hafa frestað því um mánuð að leggja tolla á innflutning frá Mexíkó.

Frá þessu greinir forseti Mexíkó, Claudia Sheinbaum Pardo, í yfirlýsingu rétt í þessu.

Þar segir hún að Mexíkó muni svipstundis senda tíu þúsund hermenn að landamærunum við Bandaríkin, til að koma í veg fyrir vímuefnasmygl til norðurs og þá einkum smygl á fentanýli.

Ræddi við Trump

Að auki fullyrðir hún að Bandaríkin hafi skuldbundið sig til að vinna að því að hamla innflutningi þungvopna til suðurs og inn í Mexíkó.

Kveðst hún hafa átt gott samtal við Donald Trump Bandaríkjaforseta og þau komist að samkomulagi um þetta.

Hópar beggja vegna landamæranna muni í dag hefja vinnu í málaflokkum öryggis og viðskipta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert