Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, er væntanlegur til Bandaríkjanna í dag þar sem á mun eiga fund með Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um annan áfanga vopnahlésins á Gasa.
Íraelski forsætisráðherrann verður fyrsti erlendi leiðtoginn til að eiga fund með Trump eftir að hann tók við forsetaembættinu á nýjan leik í síðasta mánuði.
Netanjahú tjáði fréttamönnum áður en hann hélt um borð í flugvél sína áleiðis til Bandaríkjanna að hann og Trump myndu ræða sigur yfir Hamas-samtökunum, frelsun gísla og baráttuna við Íran.
Trump, sem hefur hlotið mikið lof fyrir að innsigla vopnahléssamninginn eftir 15 mánaða stríð Ísraels og Hamas, sagði í gær að samningsviðræður við Ísrael og önnur lönd í Miðausturlöndum myndu halda áfram.
Óbeinar samningaviðræður Ísraela og Hamas eiga að hefjast á nýjan leik í þessari viku en fyrsta 42 daga áfanga samningsins á að ljúka í næsta mánuði.