Segir „róttæka brjálæðinga“ stýra þróunaraðstoðinni

Donald Trump ræddi við blaðamenn á flugbrautinni í Washington í …
Donald Trump ræddi við blaðamenn á flugbrautinni í Washington í gærkvöldi eftir að hafa snúið aftur frá Flórída. AFP

Auðkýfingurinn Elon Musk gerði bandarísku þróunaraðstoðina USAID að skotmarki sínu í gærkvöldi, þegar hann kallaði hana glæpasamtök.

Forsetinn Donald Trump fylgdi í kjölfarið og sagði stofnunina rekna af „róttækum brjálæðingum“ og að hann ígrundaði nú framtíð hennar.

Fullyrðingar þeirra beggja í gær gefa til kynna hversu mikið vald Trump hefur fært Musk til að breyta bandaríska stjórnkerfinu.

Musk fullyrti einnig á X, miðli sem hann tók yfir með lánsfé árið 2022, að USAID hefði með peningum skattgreiðenda fjármagnað rannsóknir á efnavopnum, þar á meðal Covid-19, sem orðið hefðu milljónum manns að bana.

Embættismenn í ríkisstjórn Bidens höfðu tengt slíkar fullyrðingar við áróðursherferð á vegum Rússa.

Mikil óvissa

Trump frysti um daginn allar hjálpargreiðslur stofnunarinnar í þrjá mánuði. Síðar samþykkti hann þó undantekningar í tilfellum matvæla- og mannúðaraðstoðar.

Starfsmenn USAID segja mikla óvissu ríkja um framtíð hennar sem sjálfstæðrar stofnunar, að því er AFP-fréttaveitan greinir frá.

USAID var komið á fót af Bandaríkjaþingi og hefur til umráða um 42,8 milljarða bandaríkjadala sem verja á til mannúðar- og þróunaraðstoðar um víða veröld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert