Donald Trump, Bandaríkjaforseti, sagði aðspurður á fréttamannafundi í Washington í gær að viðræður við Rússa og Úkraínumenn um endalok átaka í Úkraínu gengju „nokkuð vel.“
„Við erum í viðræðum við Úkraínu og Rússland,“ segir Trump.
Bætti hann því við á næstunni væri á dagskrá fjöldi funda á milli við háttsettra embættismanna úr beggja röðum.
Hann vildi hins vegar ekki tjá sig um það hvort hann hafi átt í beinum samskiptum við Vladimir Pútín, Rússlandsforseta.
Trump hefur margsinnis látið hafa það eftir sér að hann hefði „aldrei leyft“ stríðinu í Úkraínu að hefjast ef hann væri forseti. Stríðsátök hófust fyrir tæpum þremur árum en stigmögnun átaka í austurhluta Úkraínu á milli aðskilnaðarsinna, studdra af Rússum og Úkraínuhers, hófst þó mun fyrr eða í tíð Trumps.
Trump segir nú að fulltrúar ríkisstjórnarinnar eigi í virkum samskiptum við Rússa og að sá möguleiki sé til staðar að Pútín muni fljótlega stíga mikilvægt skref í átt til friðar án þess að úttala sig nánar um það.
Trump hefur meðal annars verið gagnrýninn á Volodymyr Selenskí, forseta Úkraínu, og sagt hann ósveigjanlegan þegar kemur að samningaviðræðum við Rússa.
Í nýlegu viðtali við Fox-sjónvarpsstöðina talaði hann niður til Selenskí og sagði undarlegt hve digurbarkalega Selenskí talaði í ljósi þess hve Úkraínumenn væru háðir hernaðaraðstoð frá Bandaríkjunum.
Talið er að um 40% af hergögnum og stuðningi sem berst til Úkraínumanna til stríðsrekstursins komi frá Bandaríkjamönnum. Í heild er hernaðaraðstoðin metin á um 65 milljarða dollara frá því átök hófust.
Í nýlegu viðtali við rússneska ríkissjónvarpið mærði Pútín Trump og sagði hann „kláran og pragmatískan“ mann sem hefði hagsmuni Bandaríkjanna að leiðarljósi.
Þá sagði hann samband hans við Trump vera gott og bætti því við að líklega væri eitthvað til í orðum Trumps um að ekkert hefði orðið úr átökunum í Úkraínu ef sigrinum hefði ekki verið „stolið“ af Trump í forsetakosningunum árið 2020.
Euronews og AFP segja frá.