Tollar á ESB „klárt mál“ segir Trump

Donald Trump Bandaríkjaforseti ræðir við fjölmiðla um borð í embættisflugvél …
Donald Trump Bandaríkjaforseti ræðir við fjölmiðla um borð í embættisflugvél sinni 25. janúar. Í gær boðaði hann tolla á Evrópusambandið á blaðamannafundi AFP/Mandel Ngan

Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti því yfir í gærkvöldi að tollar á innfluttar vörur frá ríkjum Evrópusambandsins væru „klárt mál“, en samtímis því boðaði hann vægari stefnu gagnvart Bretum. „Ég held að það megi leysa,“ tjáði hann afstöðu sína gagnvart tollum á Bretland á blaðamannafundi.

Ítrekaði forsetinn óánægju sína yfir viðskiptahalla Bandaríkjanna gagnvart Evrópusambandinu og setti enn fremur fram þá ósk sína Evrópulöndin ykju innflutning bandarískra bifreiða og landbúnaðarvara.

Starmer mjög geðþekkur

Trump útilokaði ekki að vörur frá Bretlandi kæmu til með að sæta auknum tollum, en vísaði einnig til góðs sambands síns við forsætisráðherrann þarlenda. „Keir Starmer forsætisráðherra hefur verið mjög geðþekkur, við höfum átt fundi saman, við höfum ræðst við í fjölda símtala, okkur kemur vel saman, við sjáum hvort við getum komið jafnvægi á efnahagsmál okkar,“ sagði forsetinn á fundinum í gærkvöldi.

Á miðnætti í kvöld tekur 25 prósenta tollur gagnvart Kanada og Mexíkó gildi og tíu prósenta gagnvart Kína. Hráolía, unnið jarðefnaeldsneyti og rafmagn frá Kanada bera þó aðeins tíu prósenta toll fyrsta kastið.

Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada hefur boðað jafn háa tolla á vörur frá Bandaríkjunum frá og með morgundeginum, stjórnvöld í Mexíkó hyggjast kynna sínar mótaðgerðir í dag, eftir því sem Claudia Sheinbaum forseti segir, en Kínverjar hyggjast kæra tollahækkanir Trumps til Viðskiptastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

The Guardian

Financial Times

Euronews

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert