Fimm einstaklingar voru fluttir á slysadeild í kjölfar skotárásar sem átti sér stað í hádeginu í dag í Risberska-háskólann í Örebro í Svíþjóð. Fjórir hafa gengist undir aðgerð og er einn þeirra í lífshættu að sögn yfirvalda.
Lögreglustjórinn í Örebro, Roberto Eid Forest, sagði á blaðamannafundi nú á þriðja tímanum að tilkynning um árásina hefði borist kl. 12:33 að sænskum tíma, eða kl. 11:33 að íslenskum tíma. Þá var fjölmennt lögreglulið sent á vettvang. Aðspurður segir hann að árásin hafi átt sér stað innan veggja skólans.
Forest segir að það sé ekki hægt að segja til um það á þessari stundu hvort einhver hafi látið lífið. Hann kveðst enn fremur ekki geta veitt upplýsingar um það á þessari stundu á hvaða aldri fólkið sé og hvort það hafi verið nemendur eða starfsmenn skólans.
Reykur var á vettvangi þegar lögreglan kom og aðstoðaði lögreglan fólk sem var með skotsár. Talið er að einn þeirra sem lögreglan aðstoðaði hafi mögulega verið árásarmaðurinn. Sænskir fjölmiðlar segja að hann hafi verið fluttur á sjúkrahús.
Lögreglan hefur biðlað til almennings að halda sig fjarri á meðan lögreglan athafnar sig á vettvangi.
Kennari við skólann segir í samtali við sænska fjölmiðla að hann hafi heyrt skothvelli í hádeginu og þá hafi hann lokað sig inni í byggingunni og beðið frétta. Hann segir að kennararnir séu með öryggisapp í símanum og þannig hefði hann getað rætt við samstarfsfélaga sína.
Lögreglan segir að rannsókn standi enn yfir og er unnið að því að leita í öllum byggingum skólans. Lögreglan telur þó ekki hættu á fleiri árásum hefur hleypt út fólki sem var haldið inni í skólanum á meðan fyrstu aðgerðir stóðu yfir.
Fréttin verður uppfærð.