Hefndartollar Kínverja kynntir

Stál í stál. Trump hefur frestað aðgerðum sínum gagnvart Kanada …
Stál í stál. Trump hefur frestað aðgerðum sínum gagnvart Kanada og Mexíkó í tollamálum en þeir Xi Jinping Kínaforseti vægja hvergi og í dag kynntu Kínverjar mótleik sinn. AFP/Charly Triballeau

Kínversk stjórnvöld gáfu það út í morgun að þau hygðust leggja tíu prósenta tolla á innfluttar vörur frá Bandaríkjunum – bifreiðar með stærra vélarslagrými, pallbifreiðar og landbúnaðarvélar. Á hráolíu og gas leggjast fimmtán prósent.

Er þetta svar Kínverja við tíu prósenta tollum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, til viðbótar við aðra tolla á kínverskar vörur, sem þegar eru til staðar, en nýja viðbótin tók gildi á miðnætti.

Hafa Kínverjar gagnrýnt tollaútspil Trumps harðlega og boðað kæru til Viðskiptastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Að sögn Kínverja eru aðgerðir Trumps „alvarlegt brot gegn reglum Viðskiptastofnunarinnar sem gera ekkert til að leysa eigin vanda Bandaríkjanna og kollvarpa eðlilegum efnahags- og viðskiptatengslum Kína og Bandaríkjanna“.

Þar með er þó ekki allt talið

Auk þessa hóta Kínverjar rannsókn á tæknirisanum Google auk þess að skrá tískuvörusamsteypuna PVH Corp, eiganda merkjanna Tommy Hilfiger og Calvin Klein, og líftæknifyrirtækið Illumina á lista sinn yfir „óáreiðanlega aðila“.

Þar með eru aðgerðirnar ekki að fullu taldar þar sem kínversku yfirvöldin boða aukið eftirlit með útflutningi sínum til Bandaríkjanna á ýmsum fágætum málmum og efnum, frumefnunum tellúr, bismút og mólýbden svo dæmi séu nefnd, en þau nýtast við margs konar iðnframleiðslu.

Claudia Sheinbaum Mexíkóforseti og Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada hafa fengið sínum ofurtollum frestað um mánuð með samningum við Trump um að stemma stigu við flæði ólöglegra innflytjenda og hins banvæna ópíóðalyfs fentanýls yfir landamæri sín við Bandaríkin sem forsetinn hefur meðal annars nefnt sem ástæðu fyrir þeim tollálögum er hann boðaði með litlum sem engum fyrirvara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert