Unglingsstúlka lést eftir að hákarl réðst á hana undan Bribie-eyju á austurströnd Ástralíu í gær.
Frá þessu greina lögregluyfirvöld í Queensland-fylki í Ástralíu en konan, sem var 17 ára, var á sundi þegar hákarlinn réðst á hana skammt frá landi á vinsælum brimbrettastað.
Hún hlaut lífshættulega áverka sem kostuðu hana lífið að sögn lögreglunnar. Faðir stúlkunnar segir við ástralska miðilinn ABC að hann og eiginkona hans séu niðurbrotin en vilji á sama tíma að fólk hætti ekki að koma á ströndina og njóta hennar.
Að sögn ABC var unga konan þjálfaður björgunarmaður og vanur sundmaður á svæðinu sem er vinsæll ferðamannastaður. Þetta var þriðja hákarlaárásin á síðustu þremur mánuðum í Queensland-ríki.