„Upplifði mig aldrei í hættu“

Halldór segist hafa verið brugðið vegna frétta af árásinni.
Halldór segist hafa verið brugðið vegna frétta af árásinni. Samsett mynd

Íslenskur læknanemi í Örebro segist hafa verið verulega brugðið við fréttum af skotárás sem var gerð á Risbergska-háskólann í borginni í dag. Hann kveðst hafa átt erfitt með að lesa fregnir af árásinni.

„Það var frekar erfið tilfinning [að lesa fréttir af árásinni] því það er ekki algengt að slík árás sé gerð í Svíþjóð,“ segir Halldór Rúnar Jónsson, íslenskur læknanemi við Örebro-háskólann, í samtali við mbl.is.

Nefnir hann að þó svo að það berist iðulega fréttir af árásum í Svíþjóð séu þær flestar á milli glæpagengja en ekki árásir á almenna borgara. Segir hann sömuleiðis óalgengt að sjálfvirk vopn séu notuð í slíkar árásir, en samkvæmt upplýsingum Aftonbladet notaði árásarmaðurinn slíkt vopn. 

Sérsveitarmaður, lögreglumenn og aðrir viðbragðsaðilar á vettvangi í dag.
Sérsveitarmaður, lögreglumenn og aðrir viðbragðsaðilar á vettvangi í dag. AFP/Kicki Nilsson

Upplifði sig aldrei í hættu

Árásin var gerð í hádeginu í dag og hefur sænska lögreglan sagt að að minnsta kosti tíu manns hafi látið lífið í árásinni, þar á meðal skotmaðurinn.

Örebro-háskólinn er í tæplega níu kílómetra fjarlægð frá Risbergska-háskólanum.

Spurður hvernig viðbrögð skólafélaga hans hafi verið við fregnum af árásinni segist Halldór ekki hafa orðið var við marga nemendur á göngum skólans í dag, en sjálfur hafði hann setið við lestur á bókasafni skólans. 

Aðspurður segist hann aldrei hafa upplifað sig í hættu í þessum aðstæðum þó svo að honum hafi í fyrstu fundist óhugnanlegt að hugsa til þess að árásin hafi átt sér stað skammt frá þar sem hann var. 

„Ég hugsaði þetta en svo hugsaði ég að það væru minni líkur en meiri að það muni eitthvað gerast hérna líka. Þannig ég upplifði mig aldrei í hættu,“ segir Halldór. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert