„Í dag sáum við hrottalegt og banvænt ofbeldi gegn algjörlega saklausu fólki. Þetta eru verstu fjöldaárásir í sögu Svíþjóðar,“ sagði Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, á blaðamannafundi nú fyrir skemmstu.
Í það minnsta tíu manns létu lífið og sex særðust í skotárás sem var gerð á Risbergska-háskólann í Örebro í Svíþjóð í dag. Árásarmaðurinn er talinn vera á meðal hinna látnu.
Forsætisráðherrann kvaðst skilja vel að árásin veki upp spurningar á meðal almennings en ítrekaði að engin frekari hætta steðjaði að svo stöddu.
„Það er engin frekari hætta á þessari stundu. Að fara í skólann er ekkert hættulegra núna en það var í gær,“ sagði Kristersson.
Dómsmálaráðherra Svíþjóðar, Gunnar Strömmer, tók undir orð forsætisráðherrans og sagði að árásin væri versta fjöldaárás sem hefur átt sér stað í Svíþjóð.
„Þetta er atburður sem vekur upp óhug á meðal margra. Þetta er einhver hryllingur sem maður les um að gerist í öðrum löndum en ekki eitthvað sem maður hélt að myndi gerast í Svíþjóð,“ sagði Strömmer á blaðamannafundinum.
Lögreglan vinnur nú að því að bera kennsl á hin látnu og láta ættingja þeirra vita. Strömmer ítrekaði að það væri mikilvægt að sína biðlund í aðstæðum sem þessum og gefa lögreglunni rými til að rannsaka málið.