Donald Trump Bandaríkjaforseti leggur til að íbúum Gasa-svæðisins verði varanlega komið fyrir á öðru landsvæði utan stríðshrjáða svæðisins á Gasa.
Þetta sagði forsetinn í fyrir fund hans með Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, í Hvíta húsinu í dag. Búist er við að þeir ræði um viðkvæmt ástand vopnahlésins á Gasa og gíslatökusamninginn í átökum Ísraelsmanna og hryðjuverkasamtakanna Hamas.
„Ég held að fólk eigi ekki að fara til baka. Það er ekki hægt að búa á Gasa núna. Ég held að við þurfum annan stað. Ég held að það eigi að vera staður sem gerir fólk hamingjusamt,“ sagði Trump.
Ummæli forsetans koma í kjölfar þess að hann og hans helstu ráðgjafar sögðu að þriggja til fimm ára tímalína fyrir enduruppbyggingu á Gasa, eins og mælt er fyrir um í tímabundnu vopnahléssamkomulagi á milli Hamas og Ísraelsmanna, sé ekki vænleg til árangurs.
„Fyrir mér er ósanngjarnt að segja við Palestínumenn að þeir geti verið komnir aftur heim eftir fimm ár. Það er bara fráleitt,“ sagði Steve Witkoff, sendifulltrúi Trumps í Miðausturlöndum, við blaðamenn.
Trump hefur áður hvatt Egypta og Jórdana til að tryggja varanlega búsetu Palestínumanna á sínu landsvæði en bæði ríkin hafa hafnað slíkum tillögum. Leiðtogar ríkjanna lögðu áherslu á í dag að „skuldbinda sig til að taka þátt í sameinaðri afstöðu arabaríkja“ sem myndi stuðla að því að ná fram friði.
„Jæja, þeir hafa kannski sagt það, en margir hafa sagt ýmislegt við mig,“ sagði Trump við blaðamenn í Hvíta húsinu.