Árásarmaðurinn sem skaut tíu manns til bana í skóla í borginni Örebro í Svíþjóð í gær lést vegna skotsárs af eigin völdum að sögn lögregluyfirvalda í Svíþjóð.
Lögregluyfirvöld hafa ekki enn greint frá því hver árásarmaðurinn var. Maðurinn var látinn þegar lögreglumenn komust til hans en hann er sagður ekki hafa komist í kast við lögin áður.
Lögreglustjórinn í Örebro segist hvorki geta tjáð sig um árásarmanninn né um fórnarlömb árásarinnar.
Sex manns eru enn á spítala þar sem gert er að sárum þeirra vegna árásarinnar. Fimm þeirra þurftu að gangast undir aðgerð og tveir eru á gjörgæslu. Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svía, segir árásina þá verstu í sögu þjóðarinnar.
Árásir í skólum eru afar fátíðar í Svíþjóð. Skotárásir sem og sprengjuárásir hafa verið algengar í landinu í tengslum við glæpagengi en tugir manna látast vegna slíkra árása í Svíþjóð á ári hverju.
Eins og áður sagði hafa yfirvöld í Svíþjóð ekkert viljað tjá sig um það hver árásarmaðurinn var.
TV4 sjónvarpsstöðin í Svíþjóð hefur þó haldið því fram að maðurinn hafi verið 35 ára og atvinnulaus, sem hafi fjarlægst fjölskyldu sína og vini seinustu misseri
Sannkölluð þjóðarsorg er í Svíþjóð en sænski fáninn var dreginn í hálfa stöng í dag við allar byggingar á vegum konungsfjölskyldunnar sem og hins opinbera vegna árásarinnar.