Jonas Claesson, forstjóri heilbrigðis og lækninga á sjúkrahúsinu í Örebro, segir að þeir fimm sem voru fluttir á sjúkrahús eftir skotárásina í Örebro í Svíþjóð í gær hafi gengist undir aðgerð og sé ástand þeirra stöðugt.
Þetta sagði hann á blaðamannafundi lögreglunnar í dag en staðfest hefur verið að 11 hafi látið lífið í skotrásinni í Riberska-háskólanum í Örebro í gær, þar á meðal skotárásarmaðurinn sem var á fertugsaldri.
Sex voru fluttir særðir á sjúkrahús, fjórar konur og tveir karlar. Fimm voru með skotáverka en einn reyndist minniháttar særður. Clesson segir að tveir liggi enn á gjörgæsludeild.
Lögreglan hefur ekki borið kennsl á öll fórnarlömbin að sögn Roberto Eid Forest, lögreglustjóra í Örebro.
Hann segist ekki hafa nákvæmar upplýsingar um hversu langur tími leið þar til lögreglan fór inn í skólabygginguna og ástæðan fyrir því að svo langur tími leið áður en lögreglan upplýsti um fjölda látinna hafi verið sú að skólabyggingin er stór.
Hinn grunaði árásarmaður fannst látinn þegar lögreglan fór inn í skólabygginguna en lögreglan hefur ekki staðfest fregnir fjölmiðla að hann hafi svipt sig lífi.