Skjálftavirknin heldur áfram á grísku eyjunni Santorini í Eyjahafi en ný skjálftahrina reið þar yfir í morgun. Fordæmalaus skjálftavirkni hefur leitt til þess að fjöldi fólks hefur nú flúið eyjuna.
Sjö skjálftar í röð mældust yfir 4,0 stigum snemma í morgun en stærsti skjálftinn síðan um helgina mældist í gærkvöldi 5,2.
Eyjan er á virku eldfjallasvæði í Eyjahafi en stjórnvöld hafa sagt jarðskjálftana tengjast flekahreyfingum frekar en kvikuinnskotum.
Rúmlega 11.000 manns hafa farið frá Santorini síðan um helgina og bæði skip og flugvélar hafa verið sendar til eyjunnar til aðstoðar við fólksflutninga.
Ekki hefur verið tilkynnt um slys eða skemmdir en björgunarsveitir hafa verið sendar á svæðið í varúðarskyni og fleiri jarðskjálftamælar hafa verið settir upp á vettvangi.
Möguleiki er á grjóthruni og sem varúðarráðstöfun hefur skólum verið lokað fram á föstudag, sem varð til þess að margir foreldrar hafa yfirgefið Santorini með börnin sín þar til skjálftahrinunni léttir.
„Það er órói á Santorini núna, fólk er að flýja, þarna eru mjög brattar skriður, brúnin á öskjunni er eins og hnífsegg, þar er mjög bratt en þar hefur líka mikið verið byggt af því að það er fallegt að búa þar og mikið útsýni. Þarna hefur verið byggt út á ystu nöf og þau hús eru núna í hættu, þar er bara skriða niður í sjó,“ var haft eftir Haraldi Sigurðssyni, eldfjallafræðingi og prófessor emeritus, í viðtali við mbl.is fyrir nokkrum dögum.
Eyjan liggur ofan á eldfjalli sem gaus síðast árið 1950 og segja sérfræðingar svæðið ekki hafa upplifað skjálftavirkni á þessum mælikvarða síðan mælingar hófust árið 1964.
Að sögn Haralds hafa skiptar skoðanir verið á meðal fræðafólks um hvort skjálftavirknin tengist Amorgos-misgenginu, og líkur séu þá á áframhaldandi skjálftavirkni, eða eldfjallinu Kolumbo, og hætta sé á að skjálftarnir séu undanfarar eldgoss.
„Ég held að sterkar líkur séu á því að þetta misgengi sé orðið virkt aftur, Amorgos-misgengið,“ er haft eftir honum í viðtalinu.
„Tíminn einn sker úr um það hverjir hafa rétt fyrir sér.“
6.000 skjálftar hafa mælst nálægt eyjunum Santorini, Amorgos, Anafi og Ios síðan 26. janúar.
Sérfræðingar hafa hingað til ekki getað sagt til um hvenær skjálftavirkninni lýkur en leggja áherslu á að hún sé fordæmalaus.
Eyjan er vinsæll áfangastaður ferðamanna og laðaði að sér um 3,4 milljónir ferðamanna árið 2023 og voru um milljón þeirra farþegar skemmtiferðaskipa. Algengara er að heimsækja eyjuna á sumarmánuðum og er fjöldi erlendra gesta því í lágmarki á þessum árstíma, að sögn yfirvalda.