Neyðarástandi hefur verið lýst yfir á grísku eynni Santorini. Rúmlega ellefu þúsund manns hafa yfirgefið eyjuna og ferðum með flugi og ferjum hefur verið fjölgað til að anna flóttanum.
Fleiri en 7.700 skjálftar hafa riðið yfir í grennd við eyjuna á aðeins tæpum tveimur vikum.
Sá stærsti til þessa mældist 5,2 að stærð og varð í gær. Þá varð skjálfti af stærðinni 4,8 í dag.
Áhrifin ná víðar í Kýklades-eyjaklasanum, sem á íslensku nefnast Hringeyjar. Þannig hafa skólar á fleiri en tólf eyjum staðið lokaðir í þessari viku til að gæta varúðar.
Mikill fjöldi barnafólks hefur enda ákveðið að fara brott af Santorini til að bíða hrinuna af sér.
Nýjustu mælingar á grundvelli gervihnattagagna benda til þess að land hafi tekið að rísa lítillega á eyjunum umhverfis neðansjávareldfjallið, sem sjá má á kortinu hér að ofan.
Gríska dagblaðið Ta Nea hefur þetta eftir Michalis Foumelis, aðstoðarprófessor við jarðvísindadeild Aristótelesarháskóla í Þessalóníku.
Niðurstöðurnar eru ekki endanlegar og landrisið sem þó mælist er ekki mikið, en það gæti þó gefið til kynna að kvika hafi brotið sér leið upp á minna dýpi. Þar með gætu líkur aukist á eldgosi í grennd við eyjuna.
Segir Foumelis að beðið sé eftir gögnum úr fleiri áttum til að staðfesta að landris hafi átt sér stað.
Santorini er raunar öskjubrún eldfjalls sem liggur falið undir sjávarmáli norðaustur af eynni.
„Þarna var eitt stærsta gos á jörðinni einhvern tímann á bronsöld, fyrir um það bil 3.500 árum, og hafði mjög mikil á allt Miðjarðarhafið, sérstaklega á Egyptaland og líklega Grikkland og eyjarnar þar í kring,“ sagði Haraldur Sigurðsson, prófessor emeritus í eldfjallafræði, í samtali við mbl.is fyrr í vikunni.
„Eyjan er eins og hringur utan um öskjuna og í gosi á miðöldum komu upp tvær eyjar í öskjunni, en þarna eru líka miklar fornminjar sem grófust undir gosinu mikla, bæir sem nú er verið að grafa upp undan 20-30 metra lagi af vikri og ösku sem þeir fóru undir. Þannig að mikil menningarstarfsemi er tengd Santorini,“ sagði Haraldur.
Eldfjallið nefnist Kolumbo og liggur átta kílómetra norðaustur af Santorini.
„Það er neðansjávar, en grunnt á því, svona 20-30 metrar niður á gígbrúnina. Þar hef ég unnið með kafbáta og rannsóknartæki í gígnum og þar gaus árið 1650. Þá kom upp ský af ösku og vikri sem barst yfir Santorini og hafði mjög slæm áhrif og gerði mikinn usla á norðurhluta eyjarinnar,“ sagði Haraldur.
Síðast varð þar eldgos árið 1950.
Gríski forsætisráðherrann Kyriakos Mitsotakis fullyrti í dag að enga bráða hættu stafaði af þessari fordæmalausu skjálftahrinu, þegar hann heimsótti Santorini og hitti þar íbúa og viðbragðsfólk.
Virknin hefur komið jarðvísindamönnum í opna skjöldu, sem segja að ekki hafi mælst önnur eins skjálftavirkni frá því mælingar hófust árið 1964.