Áfrýjunarmál trúfélagsins Votta Jehóva gegn norska ríkinu hóf göngu sína fyrir Lögmannsrétti Borgarþings í þessari viku og gert ráð fyrir að meðferð þess standi þar fram á föstudag eftir viku.
„Synjun um ríkisstyrk til trúfélags getur ekki byggst á því að félagið fylgi ekki þeirri háttsemi sem norska ríkið telur æskilega, svo lengi sem háttsemin felist í iðkun eigin trúarlegrar sannfæringar,“ segir Anders Ryssdal við norska fjölmiðilinn Vårt Land.
Ryssdal er einn margra lögmanna Votta Jehóva í málinu, sem trúfélagið höfðaði upphaflega gegn norska ríkinu í kjölfar þess er fylkismaðurinn í Ósló og Viken, sem þá hét, svipti trúfélagið styrk sínum úr ríkissjóði og skráningu þess sem trúfélags árið 2022.
Sýknaði Héraðsdómur Óslóar norska ríkið af kröfum félagsins 4. mars í fyrra, en Vottar Jehóva kröfðust þess að ríkissjóði yrði gert að greiða trúfélaginu ríkisstyrki vegna áranna 2021 til 2023 auk vaxta, alls 51 milljón norskra króna, jafnvirði 672 milljóna íslenskra króna, en norsk yfirvöld sviptu trúfélagið styrkjum sínum í janúar 2022 í kjölfar þess er norska ríkisútvarpið NRK afhjúpaði útskúfun og útilokun innan trúfélagsins í þáttaröðinni Guds utvalde, eða Guðs útvöldu.
„Með reglum sínum og framkvæmd á útskúfun hvetja Vottar Jehóva til þess að þeir félagsmenn séu sniðgengnir sem vísað er úr félaginu eða draga sig út úr því með þeim afleiðingum að þeir, með fáum undantekningum, sæta samfélagslegri einangrun frá þeim sem áfram eru í félaginu. Fellst dómurinn á það með ríkinu að framkvæmd þessa felur í sér alvarlega meingerð gegn réttindum og frelsi annarra sem er grundvöllur þess að neita [félaginu] um ríkisstyrk og skráningu sem trúfélag,“ sagði í dómsorði héraðsdóms.
Var Vottum Jehóva gert að greiða 1.140.505 krónur í málskostnað, jafnvirði tæplega fimmtán milljóna íslenskra króna.
Í málflutningi lögmanna trúfélagsins kom fram að norska ríkið legði í meginatriðum áherslu á eigin túlkun trúarlegra texta og gætu trúarleg spursmál, svo sem afstaða trúfélagsins gagnvart brottvísuðum og þeim sem hættir eru, ekki verið prófsteinn fyrir yfirvöldum og dómstólum.
Eins væri ekki sannað að neins konar „skaðleg“ framkvæmd hefði átt sér stað með útskúfun barna úr trúfélaginu eða sams konar framkvæmd sem brjóti á rétti félaga til að segja sig úr félaginu af fúsum og frjálsum vilja. Hver félagi fyrir sig ákvæði sjálfur, út frá biblíulegum sjónarmiðum, hvaða afstöðu hann tæki gagnvart útskúfuðum og þeim sem hætt hefðu.
Í tengslum við réttarhöldin ræddi Eydís Mary Jónsdóttir, sem gekk út úr Vottum Jehóva, við Morgunblaðið í janúar í fyrra, en hún sat aðalmeðferðina fyrir héraðsdómi. Vakti viðtalið hörð viðbrögð Skandinavíuskrifstofu Votta Jehóva í Danmörku og var þeim blaðamanni sem hér skrifar hótað málssókn í kjölfar þess.
Hér að neðan má lesa bút úr viðtalinu, en Eydís og Malín Brand, báðar fyrrverandi sóknarbörn Votta Jehóva á Íslandi, eru komnar til Óslóar til að fylgjast með réttarhöldunum fyrir lögmannsrétti og munu ræða við mbl.is á næstu dögum.
„Mamma var vottur þegar ég var lítil,“ heldur Eydís áfram. „Hún skildi við pabba sem var samt alltaf á hliðarlínunni í félaginu. Hann fór á samkomur og hélt ekki jól og allt það en tók aldrei skrefið til fulls. Þau skildu þegar ég var sex ára og eins og þessu var stillt upp fyrir mér þegar ég var sex ára var mamma farin út úr söfnuðinum og ég náttúrulega bara trúði því að hún væri að fara að deyja í harmageddon [heimsendi samkvæmt kenningum Votta Jehóva] sem ég trúði að kæmi fyrir árið 2000,“ segir hún frá.
„Þetta var sett upp þannig fyrir okkur systkinunum að pabbi lofaði því að hjálpa okkur að lifa af harmageddon ef við veldum hann við skilnaðinn. Þannig að við öll systkinin veljum í raun að búa hjá pabba algjörlega ótengt öllu öðru en að við ætluðum að lifa af harmageddon þannig að okkar samband við móður okkar var að mörgu leyti eyðilagt með þessu. Bróðir minn til dæmis bauð mömmu ekki í brúðkaupið sitt,“ segir Eydís sem kveðst í framhaldinu hafa alist upp að mestu innan safnaðarins.
„Pabbi drakk mikið og ég fékk nóg af því þegar ég var fimmtán ára og ákvað að flytja heim til mömmu – sem ég hafði verið í mjög takmörkuðu sambandi við fram að því – þar sem ég fékk næði til að vera ég,“ rifjar Eydís upp. Móðir hennar tjáði sig ekkert um trúfélagið við dóttur sína, hvorki jákvætt né neikvætt, en ók henni á samkomur og leyfði henni algjörlega að ráða ferðinni.
Hefurðu sætt aðkasti síðan þú hættir í félaginu?
„Af því að ég skírðist ekki má fólk í félaginu nálgast mig og tala við mig, en sambandið er alltaf takmarkað. Ég hef aldrei upplifað eðlilegt samband við þá ættingja sem eru hluti af söfnuðinum. En það er bara vegna þess að ég var ekki skírð. Þau trúa því náttúrulega að ég og mín fjölskylda muni deyja von bráðar í harmageddon þannig að það er kannski lógískt, í þeirra augum, að setja ekki mikla orku í það að byggja upp samband við mig, fyrir utan það hversu „slæmur félagsskapur“ ég er þar sem ég er ekki vottur. Í Vottunum er ekki ungbarnaskírn, börn eru skírð mun síðar, ég held að meðalaldurinn sé 14-15 ára,“ útskýrir Eydís og enn fremur að foreldrarnir taki ekki ákvörðun um skírnina, börnin svari spurningum og í kjölfarið ákveði öldungarnir hvort þau séu tilbúin eður ei.
Hafi barn ekki hlotið skírn fimmtán ára gamalt sé algengt að jafnaldrar þess í söfnuðinum líti það hornauga, ýti því jafnvel til hliðar og haldi vissri fjarlægð. „Ég ólst upp í þessu og fyrir mér var þetta eðlilegt, ég hafði engan samanburð. En núna er elsta barnið mitt tvítugt og ég hef alið mín börn upp – og sjálfa mig í raun upp á nýtt – og þá kannski áttar maður sig á því hve sterkt og mótandi þetta neikvæða félagslega taumhald er og hversu alvarlegar afleiðingar það hefur,“ segir Eydís frá.
Hún ólst upp á Akureyri en var síðar á Reyðarfirði og í Fellabæ. „Á Reyðarfirði var ég bara eina stelpan sem var vottur, fyrir utan mig voru það bara systkini mín og einhver yngri börn. Ég man bara eftir þessari tilfinningu að vera mikið ein. Ég mátti ekki fara á bekkjarkvöld, ég mátti ekki fara á árshátíðir og ég tók ekki þátt í íþróttum eftir skóla, en ég held að ég sé búin að banka á dyrnar á hverju einasta húsi á Austurlandi byggðu fyrir 1994,“ segir Eydís af árunum fyrir austan.
Hver voru rökin fyrir þeim reglum – að mega ekki sækja skemmtanir með fólki utan trúfélagsins?
„Vottarnir sjá sig ekki sem hluta af heiminum. Þeir trúa því að heimurinn – sem er allt fyrir utan trúfélagið – sé á valdi hins vonda og þar séu bara satan og illir andar að reyna að ná þér frá Jehóva og beiti öllu sem þeir geta. Þeir gangi bara um eins og öskrandi ljón, leitandi að þeim sem þeir geti gleypt. Svona var mér kennt að horfa á fólk utan safnaðarins. Þess vegna þurfi maður að passa sig á kennurum og líka öðrum börnum, að þau séu ekki að taka hug þinn frá Jehóva,“ segir Eydís og heldur áfram – því málið er enn flóknara.
„Það skiptir líka máli hvernig þú eyðir tímanum þínum. Eyðirðu honum í að gera eitthvað fyrir Jehóva eða ertu bara að gera eitthvað sem er bara gaman en gæti komið í veg fyrir að þú komist í gegnum harmageddon? Þetta er alltaf þessi hræðsla. Jehóva veit líka hvað þú hugsar. Hann sér ekki bara hvað þú gerir heldur hvað þú hugsar svo þú þarft að passa að hugsa ekki vondar hugsanir. Þá deyrðu bara í harmageddon,“ segir Eydís.