Masoud Pezeshkian, forseti Írans, hefur sakað Donald Trump Bandaríkjaforseta um að reyna að knésetja Íran.
Þetta sagði forsetinn þegar Íranar minnast þess í dag að 46 ár eru liðin frá byltingunni í Íran þar sem stjórnarfar landsins breyttist úr keisaradæmi undir stjórn Íranskeisarans Mohammad Reza Shah Pahlavi í íslamskt lýðveldi undir stjórn æðstaklerksins Ruhollah Khomeini.
Fjölmenni hefur komið saman víða í Íran í dag til að minnast dagsins.
„Trump segir: „Við viljum tala“ og svo skrifar hann niður öll þau samsæri sem er ætlað að knésetja byltingu okkar,“ sagði Pezeshkian á fjöldafundi í dag. Með orðum sínum vísaði hann til refsiaðgerða gagnvart Íran sem bandarísk yfirvöld kynntu fyrr í þessum mánuði.
„Við erum ekki að leita eftir stríði,“ sagði hann og bætti við: „Við munum aldrei beygja okkur undir vald útlendinga.“