Noregsdeild mannréttindasamtakanna Amnesty International, Amnesty International Norge, hefur stefnt norska dómsmálaráðuneytinu fyrir mismunun lögreglunnar í Þrændalögum í garð Awons Amidus, þeldökks íbúa þar í borginni sem einnig kemur fram sem stefnandi í málinu.
„Þetta mál snýst ekki einvörðungu um réttindi einnar manneskju heldur um formlegar áskoranir á sviði þess hvernig ríkið tekst á við þær skyldur sínar að vernda [þegnana] fyrir kynþáttahatri og mismunun,“ skrifar John Peder Egenæs, framkvæmdastjóri Amnesty International Norge, í fréttatilkynningu um málið. Ríkið sé tilneytt að taka á mismunun vegna kynþáttar af alvöru.
Halda stefnendur því fram að Amidu hafi um árabil sætt mismunun og áreiti lögreglunnar í Þrændalögum. Hafi lögregla ítrekað fylgt honum eftir um lengri vegalengd á ómerktri lögreglubifreið og stöðvað akstur hans til að viðhafa eftirlit sem engar málefnalegar ástæður hafi stutt.
Nefnd sem fjallar um mismunun af hálfu hins opinbera, diskrimineringsnemnda, hefur þegar úrskurðað að lögreglan í Þrændalögum mismuni Amidu á grundvelli kynþáttar hans. Telji nefndin mismununina hins vegar ekki ná til meðhöndlunar upplýsinga um hann í kerfum lögregluembættisins. Þá vill nefndin ekki fallast á að um áreiti (n. trakassering) lögreglu sé að ræða í máli Amidus né að lögregla hafi ekki aðhafst nægilega til að fyrirbyggja slíkt.
„Eini möguleiki hans til að ná rétti sínum er að stefna ríkinu. Með slíkri málsókn mætti leggja grundvallarlínurnar um ábyrgð yfirvalda á því að leiðrétta hvernig að honum hefur verið vegið,“ segir Emilie Hulthin, lögmaður á vegum lögmannsstofunnar Hjort sem fer með málið, einnig í fréttatilkynningu.
„Við erum ekki nægilega vel inni í þessu máli til að tjá okkur um það og úr því það er dómsmálaráðuneytið sem stefnt er í málinu er það ekki okkar að tjá okkur um það,“ segir Nils Kristian Moe, lögreglustjóri í Þrændalögum, við norska ríkisútvarpið NRK.
Frá dómsmálaráðuneytinu berast þau ummæli að málið sé þar til skoðunar.
„Málið snýst um traust á lögreglu, réttarríkinu og því að við sem samfélag tökum mannréttindi og kynþáttahatur alvarlega. Awon Amidu hefur barist í bökkum um árabil og barátta hans vegur þungt í því að draga veikleika norsks réttarkerfis fram í dagsljósið,“ segir Egenæs enn fremur í sinni fréttatilkynningu.