Borgarstjóra veittur gálgafrestur

Eric Adams borgarstjóri hefur þumal sinn á loft á leið …
Eric Adams borgarstjóri hefur þumal sinn á loft á leið af fyrirlestri Jessicu Tisch lögreglustjóra um gang mála hjá lögreglu New York-borgar, "State of the NYPD", 30. janúar. Ákæra á hendur honum vegna spillingar verður felld niður en hugsanlega endurvakin eftir kosningar. AFP/Yuki Iwamura

Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur farið þess á leit við ákæruvaldið að það leggi spillingarmál gegn Eric Adams, borgarstjóra í New York, á hilluna, en eins og mbl.is fjallaði um í september var borgarstjóra brigslað um mútuþægni, fjársvik og móttöku ólögmætra styrkja frá erlendum aðilum.

Ekki er þó örgrannt um að málið verði endurvakið að loknum borgarstjórakosninum í nóvember.

Fororðningin um að láta gott heita í málaferlunum gegn borgarstjóra, sem mætti fyrir rétt í haust til að svara fyrir áburðinn, barst frá settum aðstoðarríkissaksóknara Bandaríkjanna, Emil Bove, sem kominn er til embættis fyrir atbeina Donalds Trumps Bandaríkjaforseta.

Rökstuddi Bove fyrirmæli sín með því að ákæran á hendur Adams væri honum fjötur um fót við að sinna þeim skyldustörfum sínum er lytu að baráttunni við ólöglega innflytjendur og ofbeldisglæpi í borginni.

„Ykkur er uppálagt...“

Vitað er að Adams og Trump hafa nýverið styrkt tengslin sín á milli, þvert á landamæri flokka, en Adams er demókrati. Hefur hann nýlega gefið löggæsluyfirvöldum New York-borgar fyrirmæli um að leggja gjörva hönd á plóg í þeirri herör sem Trump hefur skorið upp gegn ólöglegum innflytjendum. Neitar hann því hins vegar staðfastlega að hafa rætt mútumálið við forseta.

Saksóknararnir, sem Bove beinir sínum fyrirmælum til, hafa hins vegar ekki látið í veðri vaka hvort þeir hyggist fella málið niður eða hafa boðskap Boves að engu. Nógu skýrt var þó orðalag bréflegs erindis hins setta aðstoðarsaksóknara þar um: „Ykkur er uppálagt, að fenginni heimild ríkissaksóknara, að fella framlagða ákæru niður,“ stendur þar.

Slær Bove þó þann varnagla að ekki sé útilokað að refsimálið verði endurvakið að loknum borgarstjórakosningum í nóvember komandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert