Tveir menn á þrítugsaldri, annar þeirra með níu eldri refsidóma á ferli sínum, hinn einn, hlutu í gær fjórtán ára dóma í Héraðsdómi Óslóar, með svokölluðu forvaring-úrræði, sem táknar að raunveruleg dvöl þeirra handan rimlanna gæti orðið mun lengri – jafnvel ævin öll.
Voru mennirnir fundnir sekir um Fagerberg-drápið svokallaða í Ósló í apríllok 2023, en þá stakk annar þeirra hinn 24 ára gamla Benjamin Wilfred Muuse til bana í aftursæti bílaleigubifreiðar sem dæmdu höfðu til umráða. Ók yngri maðurinn, sem er tvítugur, bifreiðinni þrátt fyrir að hafa ekki gild ökuréttindi.
Áður en ákærðu gengu til verks neyddu þeir fórnarlamb sitt til að láta farsíma sinn af hendi auk lykilorðs að millifærsluforriti og millifærðu í kjölfarið 14.400 krónur, jafnvirði tæpra 178.000 íslenskra króna, yfir á reikning þriðja aðila, en síðar um kvöldið tæmdu ákærðu sparireikning hins myrta og höfðu þar 374.000 krónur upp úr krafsinu, jafnvirði 4,6 milljóna íslenskra króna.
Óku þeir svo með lík Muuse til Lørenskog og skildu það þar eftir við Løkenåsen-grunnskólann þar sem það fannst að morgni 28. apríl.
Þrátt fyrir að neita staðfastlega sök voru ákærðu báðir sammála Alvar Randas héraðssaksóknara um atburðarás málsins við aðalmeðferð þess. Eitt óyggjandi sönnunargagna við rekstur málsins var myndskeið sem ákærðu tóku af Muuse þar sem hann lá í aftursæti bílsins og heyrist eldri maðurinn, sem er 25 ára, segja að svona fari fyrir þeim sem hegði sér ekki. Leiddi rannsóknin í ljós að Muuse var að öllum líkindum þegar látinn er myndskeiðið var tekið.
Annað órækt sönnunargagn var myndskeið úr mælaborðsmyndavél annarrar bifreiðar á stæði þar sem ákærðu skildu bílaleigubifreiðina eftir með líki hins myrta í. Sýnir myndskeiðið þá svo snúa aftur til að sækja bifreiðina og losa sig við líkið.
Báru ákærðu því við að um rán hefði verið að ræða sem farið hefði úr böndunum. Hefðu þeir losnað úr gæsluvarðhaldi vegna annars máls skömmu áður og þá haldið til heimilis Muuse og haft í hótunum við hann þar til hann millifærði 5.000 norskar krónur, andvirði rúmra 63.000 íslenskra króna, á reikning annars ákærðu.
Þeir hefðu um leið orðið þess áskynja, gegnum netbanka Muuse, að hann átti töluvert sparifé og haldið á ný til heimilis hans daginn eftir, er þeir urðu févana. Hafi þeir þá haft bílaleigubifreiðina til umráða auk þess að vera vopnaðir grænmetishnífum úr versluninni Clas Ohlson.
Báru ákærðu fyrir dómi að þeir hefðu einungis ætlað að hræða fórnarlamb sitt auk þess sem fjórar stungur í kvið Muuse heitins hefðu verið slys eftir að til átaka kom milli hans og eldri mannsins. Hafði héraðsdómari skýringar þeirra að engu og taldi í dómsorði hafið yfir skynsamlegan vafa að ásetningur þess sem hnífnum beitti hefði staðið til þess að koma Muuse fyrir kattarnef til að komast yfir sparifé hans.
Hlutu ákærðu sem fyrr segir fjórtán ára forvaring- (bókstaflega varðveislu-) dóma með níu og hálfs árs lágmarksafplánunartíma auk þess sem þeim er gert að greiða aðstandendum fórnarlambs síns 375.000 krónur, andvirði tæpra fimm milljóna íslenskra króna, í þjáninga- og miskabætur.
Forvaring er tiltölulega sjaldgæft úrræði í norskum refsirétti og er beitt þegar sérstök hætta er talin á að ákærði brjóti af sér á ný. Án nýrrar ákæru í slíkum málum er hægt að framlengja í áföngum afplánunartíma fanga með slíka dóma – jafnvel til æviloka.
Í dómsorði þarf að tilgreina lágmarkstíma afplánunar, í þessu tilfelli níu og hálft ár, en þá mega dæmdu sækja um reynslulausn rétt eins og fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik gerði eftir tíu ára afplánun sem var hans lágmarkstími af 21 árs forvaring-dómi. Líkur eru taldar á að Breivik verði fyrsti forvaring-fangi í sögu Noregs sem látinn verði sitja í fangelsi til dauðadags.