Sænski sjónvarpsfréttamaðurinn, athafnamaðurinn og skíðastjarnan Stefan Nieminen er annar tveggja manna sem fundust látnir í tjaldi í uppgöngubúðum við hæsta fjall Svíþjóðar, Kebnekaise í Kiruna í Norður-Lapplandi, um miðnæturbil í gærkvöldi eftir að tilkynnt hafði verið um hvarf þeirra í gær og leit var hafin.
Að sögn lögreglu voru báðir mennirnir þaulvanir fjallagarpar, það hefur sænska ríkisútvarpið SVT eftir Kristinu Lantto, upplýsingafulltrúa lögreglunnar á staðnum.
Hefur SVT fengið leyfi aðstandenda Nieminens til að birta nafn hans í tengslum við harmleikinn, en hann var 63 ára gamall.
Var Nieminen þjóðþekktur fyrir starf sitt á sjónvarpsstöðinni TV4 um langt árabil og þekktur af norðursænskum framburði sínum, en hann var frá Gällivare. „Hann hafði sinn eigin stíl,“ segir Randi Gitz, fréttamaður SVT í Norrbotten, um starfsbróðurinn fyrrverandi.
Í kjölfar þess er flóðbylgjan mikla skall á Taílandi og fleiri Asíulöndum annan í jólum 2004 og varð tæplega 285.000 manns að bana var Nieminen einn fyrsti skandinavíski fréttamaðurinn á vettvang fyrir TV4 og greindi norrænum þjóðum frá hörmungunum frá fyrstu hendi.
Enn fremur var Nieminen fréttaritari TV4 í Rússlandi og flutti auk þess fjölda frétta frá stríðsátökunum við Persaflóa, Afganistan og Írak á sínum tíma.
Þá starfaði hann sem upplýsingafulltrúi almannavarnateymis Gällivare meðan á heimsfaraldrinum stóð.
Hinn maðurinn sem fannst látinn var einnig á sjötugsaldri, en ekkert er enn vitað um dánarorsök mannanna. Hefur lögregla þó gefið það út að andlát þeirra hafi ekki borið að með saknæmum hætti.